HEITASTA GJÖFIN - „Kaldsvitnaði yfir að muna ekki trúarjátninguna“
Þórður Karl Gunnarsson fæddist á Siglufirði á því herrans ári 1985 en flutti svo á Krókinn árið 1990. Þórður, sem býr í Eyrartúninu á Sauðárkróki, er giftur Arneyju Sindradóttur og eiga þau saman þrjú börn, þau Gunnar Atla, Ólaf Bjarna og Eldeyju Sif. Foreldrar Þórðar eru Auður Haraldsdóttir og Gunnar Björn Rögnvaldsson. Þórður vinnur á Stoð verkfræðistofu ehf.
Hvar og hvenær fermdist þú? Í Sauðárkrókskirkju þann 28. mars 1999 hjá sr. Guðbjörgu Jóhannesdóttur.
Manstu eftir fermingunni sjálfri og fermingarfræðslunni? Já, ég átti góðan dag með fjölskyldu og ættingjum á fermingardaginn. Kyrrðarstundirnar á miðvikudagskvöldum eru mér minnisstæðar þar sem mann átti til að syfja ansi hratt en þangað mætti maður til að uppfylla kirkjumætingu. Annars var fermingarfræðslan ágæt. Ég man að ég kaldsvitnaði yfir því að muna ekki trúarjátninguna, enda voru fullorðnir búnir að hræða fermingardrenginn með að ekkert yrði af fermingunni ef maður færi ekki með hana rétt í kirkjunni.
Hvernig var fermingardressið og hárgreiðslan? Ég var í svörtum jakkafötum úr 17 og grárri skyrtu í yfirstærð með svart bindi.
Hvar var fermingarveislan haldin? Hún var haldin á efri hæð Framsóknarhússins við Suðurgötu.
Hvað bauðstu upp á í fermingarveislunni? Strangheiðarleg kökuveisla, með öllum helstu hnallþórunum. Ég man allavega eftir kransaköku, marsípanköku og englamarengs.
Hver var heitasta gjöfin á þeim tíma? Mig langaði óskaplega í PC-tölvu á þessum tíma. Það varð ekkert af því en ég eyddi öllum fermingarpeningunum mínum í eina. Það var líklega með vitlausari ákvörðunum sem ég hef tekið á ævinni, enda úreltust tölvur fljótt á þessum tíma.
Hver er eftirminnilegasta gjöfin? Ég fékk amerískt rúm, sæng og kodda frá foreldrum mínum, fullt af peningum frá ömmu og afa á Sigló og svo fékk ég LAVA lampa sem var hrikalega töff á þessum tíma.
Hvað stóð upp úr á fermingardaginn sjálfan? Ef ég set mig í spor fermingardrengsins þennan dag þá voru það gjafirnar. En horft til baka þá myndi ég segja návist vina og ættingja.
Ef þú ættir að fermast í dag, hvernig dress yrði fyrir valinu og hver væri óskagjöfin? Ég myndi velja tweed jakkaföt og hvíta skyrtu, skó og belti sem mundi tóna við. Djammferð með vinahópnum Gargólýtunum til útlanda, gefið að ég sé að fermast 39 ára gamall.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.