HEITASTA GJÖFIN - „Auðvitað hárlokkur sitthvoru megin við andlitið“
Arna Ingimundardóttir er frá Sauðárkróki og býr í Iðutúninu á Króknum og er gift Jóhanni Helgasyni og eiga þau saman fjögur börn. Arna er ljósmóðir, vinnur í mæðravernd á HSN Blönduósi og á fæðingadeildinni á sjúkrahúsinu á Akureyri.
Hvar og hvenær fermdist þú? Ég fermdist í Sauðárkrókskirkju á skírdag þann 28. mars 2002.
Manstu eftir fermingunni sjálfri og fermingarfræðslunni? Já, ég man ágætlega eftir bæði fermingunni og fermingarfræðslunni. Ég var svo heppin að vera í fermingarfræðslu hjá séra Guðbjörgu Jóhannesdóttur. Hún náði svo vel til okkar krakkanna, gerði fermingarfræðsluna skemmtilega og ég hugsa til hennar með mikilli hlýju. Fermingardagurinn sjálfur var mjög spennandi. Byrjaði reyndar með smá stressi því ég fór á hárgreiðslustofu þar sem átti að greiða mér, ég beið ansi lengi áður en mér var greitt og endaði með því að ég þurfti að klæða mig í fínu fötin inni á klósetti á hárgreiðslustofunni og hljóp svo yfir í safnaðarheimili þar sem allir voru tilbúnir. Rétt náði fyrir athöfnina í kirkjunni. En frábær dagur.
Hvernig var fermingardressið og hárgreiðslan? Hárið var hálf uppsett með krullum og liðum hér og þar, nokkur hvít lítil blóm sem skraut og auðvitað hárlokkur sitthvoru megin við andlitið. Smá maskari á augnhárin, annars ekkert máluð. Fermingardressið var hvítt. Hvítur blúndukjóll sem náði niður á kálfa, hvítar blúnduermar yfir og hvítir opnir spariskór með þykkum botni. Minnir að flestar stelpurnar hafi fermst í hvítum eða ljósum fötum.
Hvar var fermingarveislan haldin? Fermingarveislan var haldin heima hjá mér í Ártúni 5. Það var búið að setja stóla og borð í öll herbergi og öll horn í húsinu.
Hvað bauðstu upp á í fermingarveislunni? Ég þurfti nú að spyrja mömmu að þessu og það var ansi margt. Það var graflax, laxafrauð, blandaðir sjávarréttir, rækjufrauð, nautapottréttur, svínahamborgarhryggur, heitreyktar lambalundir, lambalæri og meðlæti s.s. sósur og salöt. Síðan voru í eftirrétt alls konar kökur t.d. ísterta, súkkulaðikaka, jarðaberjaterta og kransakaka. Ég er viss um að enginn hefur farið svangur heim.
Hver var heitasta gjöfin á þeim tíma? Heitasta gjöfin á þeim tíma voru líklega græjur til að spila geisladiska, rúm og peningur.
Hver er eftirminnilegasta gjöfin? Líklega gjöfin frá foreldrum mínum en ég fékk frá þeim m.a. húsgögn í herbergið t.d. stórt skrifborð með stórri hillu fyrir ofan, náttborð og hornhillu.
Hvað stóð upp úr á fermingardaginn sjálfan? Ég held að kjóllinn og hárið hafi staðið upp úr. Það var sjaldan sem maður hafði keypt svona heilt dress sem maður valdi sjálfur og farið í greiðslu. Leið eins og prinsessu. Síðan auðvitað gjafirnar en maður fékk svo mikið af gjöfum og mikinn pening að ég man eftir að hafa verið afar þakklát í lok dags.
Ef þú ættir að fermast í dag, hvernig dress yrði fyrir valinu og hver væri óskagjöfin? Ég held að það yrði aftur hvítur kjóll fyrir valinu eða jafnvel dragt. Kannski veldi ég frekar íþróttaskó við fínu fötin eins og er í tísku í staðinn fyrir óþægilega bandaskó. Óskagjöfin væri annaðhvort nýtt rúm eða nýr sími.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.