Háskólasamstæða fýsilegasti kosturinn
Á heimasíðu Háskólans á Hólum segir að undanfarna mánuði hafi stýrihópur, skipaður fulltrúum Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum, unnið að því að meta fýsilega kosti um aukið samstarf eða sameiningu háskólanna tveggja. Fram kemur að í því skyni hafi fjórar mögulegar útfærslur verið greindar varðandi aukið samstarf eða sameiningu: Aukið formlegt samstarf, óbreytt samstarf, sameining að fullu og ný háskólasamstæða.
Í tilkynningunni segir: „Meginniðurstaða hópsins er sú að háskólasamstæða sé fýsilegasti kosturinn. Stýrihópurinn leggur því til við háskólaráð beggja skóla að hefja undirbúning stofnunar nýrrar háskólasamstæðu. Markmið hennar eru tilgreind í nýrri skýrslu, Mat á fýsileika aukins samstarfs eða sameiningar Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum, um niðurstöður fýsileikagreiningar Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum en öllum aðilum er það ljóst að ekki eigi að auka yfirbyggingu eða flækja stjórnskipulag með nýrri samstæðu.
„Háskólar á Íslandi njóta mikils trausts sem byggir á vinnu þeirra í þágu samfélagsins, í kennslu, rannsóknum og nýsköpun. Fyrir háskólakerfið er mikilvægt að háskólarnir leggi saman kraftana, efli rannsóknastarf, gæði menntunar og styrki tengslin við atvinnulíf og samfélög á landsbyggðinni,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ.“
Fjölbreyttara nám
„Það er mikilvægt fyrir Ísland að háskólakerfið sé öflugt og í stöðugri þróun til að vera vel í stakk búið til að takast á við áskoranir samtímans. Sameiginlega munu háskólarnir geta boðið upp á fjölbreyttara nám og eflt þátttöku sína í þverfaglegum alþjóðlegum rannsóknum. Öflug háskólastarfsemi um allt land sem m.a. byggir á auðlindum og sérstöðu svæðanna eflir nýsköpun og þar með seiglu byggðanna og samkeppnishæfni Íslands” segir Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor HH.
Í gær samþykkti háskólaráð Háskólans á Hólum tillögu um myndun háskólasamstæðu HÍ og HH. Til stendur að háskólaráð HÍ fjalli um tillöguna á fundi sínum í byrjun febrúar. Að því gefnu að háskólaráð HÍ samþykki hana mun vinna starfshópa hefjast fljótlega, um hvern meginþátt samstæðunnar. Þessir þættir eru allir tilgreindir í skýrslunni, og er sömu sögu að segja um alla verkþætti og en stutt yfirlit um þá er að finna í skýrslunni.
Að mati stýrihópsins er ljóst að samstæða af þeim toga sem lýst er í skýrslunni yrði umbylting í skipulagi háskólastarfs á Íslandi og mikill ávinningur fyrir íslenskt háskólasamfélag. Stýrihópurinn leggur áherslu á að ný háskólasamstæða efli háskólastarf á öllu landinu, styrki sókn á alþjóðlegum vettvangi og verði eftirsóknarverður kostur fyrir samstarf annarra háskóla og rannsóknastofnana til framtíðar.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.