Handverk og hönnun lögð niður vegna fjárskorts

Hin árlega sýning Handverks og hönnunar í Ráðhúsi Reykjavíkur verður haldin í tuttugasta og jafnframt síðasta sinn í nóvember næstkomandi en starfsemi þess verður lögð niður um næstu áramót vegna fjárskorts.
Hin árlega sýning Handverks og hönnunar í Ráðhúsi Reykjavíkur verður haldin í tuttugasta og jafnframt síðasta sinn í nóvember næstkomandi en starfsemi þess verður lögð niður um næstu áramót vegna fjárskorts.

Stjórn Handverks og hönnunar hefur ákveðið að hætta starfsemi vegna viðvarandi fjárskorts og hefur falið framkvæmdastjóra að loka starfseminni fyrir árslok 2021. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að hundruð íslenskra handverkslistamanna hafi nýtt sér þjónustu þess og þúsundir sótt fyrirlestra, sýningar og fjölbreytta viðburði sem verkefnið hefur staðið fyrir.

„Ákvörðunin er stjórninni þungbær eftir 27 ára starf þar sem íslensku handverksfólki hefur verið unninn mikill framgangur á tímabilinu. Ákvörðun um að loka starfseminni hefur fyrst og fremst áhrif á konur þar sem yfir 90% af starfandi handverks- og listiðnaðarfólki á Íslandi eru konur,“ segir í skeyti Handverks og hönnunar.

Fram kemur að mörg hundruð manns um allt land hafi nýtt sér þjónustu Handverks og hönnunar sem hófst sem sérstakt verkefni árið 1994 en breyttist í sjálfseignarstofnun í janúar 2007 og rekin með stuðningi Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

„Starf verkefnisins er fyrst og fremst að stofna til fjölbreyttra viðburða til að koma hæfileikaríku listhandverksfólki á framfæri, bæði hérlendis og erlendis. Þessi starfsemi skapar störf sem byggjast á fjárfestingu í hugviti og hæfileikum íslensks handverksfólks.

Rekstur Handverks og hönnunar hefur verið mjög þungur allt frá hruninu 2008. Síðustu fjögur ár hafa verið sérstaklega erfið en starfseminni hefur verið bjargað á síðustu stundu með framlagi af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar. Komið hefur fram hjá embættismönnum um að því verði ekki til að dreifa í ár.“

Fram kemur í tilkynningunni að samningur við menntamálaráðuneytið um starfsemina 2021 hafi ekki verið undirritaður fyrr en í júní og sé til eins árs. „Iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti gerði einnig samning til eins árs um viðbótarframlag. Síðustu samningar komu stjórn Handverks og hönnunar í opna skjöldu þar sem undanfarin ár hefur alltaf verið samið til þriggja ára. Heildarfjárframlag til rekstursins 2021 er lægra en síðustu ár og þess má geta að framlag stjórnvalda til starfseminnar 2021 er um það bil hið sama og það var starfsárið 2008 til 2009 að krónutölu. Það þýðir að sé litið til framlags til starfseminnar að teknu tilliti til verðlagsbreytinga frá haustinu 2008 hefur það lækkað um tæp 60 prósent að raunvirði.“

Alls hafa um 700 einstaklingar tekið þátt í sýningum verkefnisins og rúmlega 300 manns skráðir í gagnagrunn virkra handverkslistamanna á heimasíðu stofnunarinnar en þar má einnig finna myndefni frá nánast öllum sýningum og viðburðum sem verkefnið hefur staðið fyrir. Á póstlista eru á annað þúsund sem fá sent fréttabréf í hverri viku og fjölmargir einstaklingar hafa sótt fyrirlestra og fengið persónulega ráðgjöf í tengslum við gæðamál, vöruþróun, verðlagningu og markaðsmál og nýta einstaklingar sem og litlir hópar í grasrótinni sér þá þjónustu sem í boði er.

„Komið hefur fram hjá embættismönnum í mennta-og menningarmálaráðuneyti að ákveðið hafi verið að bjóða starfsemina út á næsta ári. Tilgangurinn er að reka starfsemina fyrir lægri upphæð og hafa einungis einn starfsmann. Sjálfseignarstofnunin Handverk og hönnun er með samþykkta skipulagsskrá og stjórn telur alveg ómögulegt að uppfylla þær kröfur sem þar eru settar fram með einum starfsmanni. Það eru engir sjóðir að sækja í ef illa fer. Í ljósi þessarar stöðu sér stjórn enga möguleika á að halda starfinu áfram. Starfsfólki hefur verið sagt upp störfum og það liggur fyrir að starfsemi sjálfseignarstofnunarinnar Handverks og hönnunar muni ljúka í árslok 2021.“

 Hin árlega sýning Handverks og hönnunar verður haldin í tuttugusta og jafnframt síðasta sinn í nóvember næstkomandi, sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir