Fyrsti T137 hrúturinn fundinn á Stóru-Hámundarstöðum
„Svo skemmtilega vill til að arfgerðin T137 hefur nú loks fundist í hrút,“ segir í frétt Eyþórs Einarssonar á heimasíðu Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins en skipuleg leit hefur staðið yfir í vetur að verndandi genum gegn riðu í sauðfé. Fundist hefur arfgerðin T137 á þremur bæjum en ARR á einum.
Hrútur sá sem fannst nú í fyrsta skiptið með T137 er frá bænum Stóru-Hámundarstöðum á Árskógsströnd við Eyjafjörð og ber nafnið Austri, er hvítur að lit og hyrndur. Hann þykir hinn álitlegasti kynbótagripur og var sá hrútur búsins sem átti hvað öflugasta sláturlambahópinn sl. haust á búinu, eins og segir í frétt RML. „Hann átti um 60 afkvæmi með sláturupplýsingar og hlutu þau að jafnaði 10,7 fyrir gerð og 5,7 fyrir fitu við 17,5 kg fallþunga. Faðir Austra er sæðingastöðvahrúturinn Amor 17-831 frá Snartarstöðum, en ekki kemur T137 frá honum.“
Nú liggja fyrir upplýsingar um 3.500 sýni auk bráðabirgðaniðurstöðu úr um 2.500 sýnum til viðbótar og segir í færslu RML að enn sem komið er hefur arfgerðin ARR ekki fundist annars staðar en á Þernunesi. „Hin mögulega verndandi arfgerð T137 finnst nú á þrem bæjum en áður hafði hún fundist á Sveinsstöðum í Austur-Húnavatnssýslu og á bænum Straumi í Hróarstungu á Héraði,“ segir á heimasíðu RML.
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.