Fullt út úr dyrum á Jólahúnum

Listafólkið pósar að loknum tónleikum með tónleikagesti í bakgrunni. AÐSEND MYND
Listafólkið pósar að loknum tónleikum með tónleikagesti í bakgrunni. AÐSEND MYND

Fullt var út úr dyrum á tónleikum Jólahúna á Blönduósi síðasta sunnudag. Tónleikarnir eru hugarfóstur Skúla heitins Einarssonar frá Tannstaðabakka en hann lést eftir baráttu við krabbamein 2021. Kærleikur og samstaða eru einkunnarorð þessara tónleika og hægt er að fullyrða að það er það sem þeir standa fyrir.

Allur ágóði tónleikanna rennur til styrktar Krabbameinsfélags Austur-Hún. Hljómsveitin var skipuð miklum snillingum. Á orgelið spilaði Eyþór Franzsson organisti Blönduóskirkju svo eitt-hvað sé nefnt af því sem Eyþór gerir. Brynjar Óli Brynjólfsson bóndi úr Blöndudalnum sló taktinn á trommunum og bræðurnir Gunnar Sigfús og Höskuldur Sveinn Björnssynir sáu um bassa og gítar. Þá fór hver söngfuglinn af öðrum á kostum en þau sem hófu upp raust sína voru; Árný Björk Brynjólfsdóttir, Helga Margrét Jóhannesdóttir, Helgi Páll Gíslason, Inga Suska, Sóley Sif Jónsdóttir, Gunnhildur Gísladóttir og barnakór Austur-Húnavatnssýslu.

Til að gera svona tónleika að því sem þeir voru þarf gott utanumhald og Árný Björk Brynjólfsdóttir sá til þess að allt gekk eins og vel smurð vél. Söngvarar og yndislegur barnakór lögðu allt sitt í að gera sitt allra besta og miðað við stemminguna í salnum var ekki annað að finna en Jólahúnum hafi tekist vel til.

Allir flytjendur svifu inn í nóttina á bleiku skýi eftir vel heppnaða tónleika sem hafa stimplað sig inn sem einn af árlegum viðburðum í aðdraganda jóla á Blönduósi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir