Fornleifauppgröftur á Höfnum á Skaga gengur vel
Vinna við fornleifauppgröft í viku þrjú á Höfnum á Skaga gekk vel en þar hafa fornleifafræðingar og starfsmenn Byggðasafns Skagfirðinga unnið við björgunarrannsóknir á aldagömlum minjum sem eru við það að hverfa í hafið. Í frétt á síðu Byggðasafns Skagfirðinga segir að veðrið í síðustu viku hafi ekki alveg vitað hvernig það átti að vera og blés stundum hressilega. „Það stöðvaði ekki starfsfólkið við störf sín – einungis drónann við myndatökur,“ segir í fréttinni.
Fram kemur að búð 12 hefur verið grafin fram og hafa m.a. fundist fallegar hlóðir í horni búðarinnar. „Hafin er vinna við öskuhauginn og er mikið verk að grafa hann og sigta. Vinna í naustinu hélt áfram og ýmsar holur; lítil eldstæði, soð- og ruslaholur, hafa verið grafnar.
Undir eldhúsinu, búð 7 (sem grafin var 2023), og norðaustur af henni, virðist önnur eldri búð vera að koma fram og hér og þar á svæðinu eru veggir og vísbendingar um byggingar að sjá.
Til að mynda birtist veggur ofan í stórri soðholu á meintu útisvæði. Vermenn höfðu því á einhverjum tímapunkti grafið sér soðholu en ekki valið staðinn betur en svo að þeir lentu á gömlum vegg í jörðinni við þá framkvæmd.
Enn er fátt um gripi þótt járnbrot finnist víða auk þess sem bein eru algeng, og auðvitað hvalbein sem eru nokkur sérstaða á þessum stað.“
Fróðleg og forvitnileg saga
Hægt er að fylgjast með upplýsingum um rannsóknina á Höfnum á síðu Byggðasafns Skagfirðinga og þar er einnig að finna hlekk á fróðlega og afar forvitnilega grein sem byggð er á fornleifafundum á Skaga og setur hvalveiðar Íslendinga í sögulegt samhengi. Þar er veiðitilhögun lýst og reglum sem giltu um hvalveiðar en ljóst þykir á þeim fornmynjum sem fundist hafa að Íslendingar hafi snemma veitt steypireiði – stærstu skepnu jarðar – á hafi úti.
Þar er m.a. rifjað upp að Jón lærði Guðmundsson hafi sagt frá Ólafi nokkrum sem haustið 1385 fór til veiða við norðvesturströnd Íslands. Á köldu hafinu rakst hann á dýr sem dvergaði opinn trébát hans — þetta var steypireyður, stærsta dýr sem sögur fara af.
Í greininni í hakaimagazine.com segir m.a.: „Steypireyðir voru þó ekki bara goðsagnakenndir verndarar Íslendinga á miðöldum - sífellt fleiri vísbendingar benda til þess að þeir hafi einnig verið mikilvægur fæðugjafi. Þegar stóri hvalurinn kom upp á yfirborðið við hlið báts Ólafs stakk maðurinn heimatilbúnu spjóti sínu í hold hvalsins. Spjótið hefði verið merkt með merki Ólafs og ef allt gengi vel myndi Ólafur særa hvalinn það illa að hann myndi skolast upp dauður á nærliggjandi strönd. Sá sem gengi fram á hvalinn myndi vita af merkingum á spjótoddinum að Ólafur hefði slegið banvæna höggið og ætti því tilkall um nýtingu hvalsins. Á tímum þegar flestir Íslendingar lifðu að mestu af því að ala sauðfé, var steypireyður — sem getur orðið meira en 30 metrar að lengd og allt að 150 tonn að þyngd — kaloríuríkur happafengur. Eitt dýr gat gefið af sér 60 tonn af kjöti — jafngildi 3.000 lamba— og samkvæmt norrænum texta frá 13. öld var sagt að steypireiður væri „betri til átu og lyktaði betur en nokkur annar fiskur.“
Þetta haust árið 1385 hafði Ólafur hins vegar ekki heppnina með sér. Hvalinn rak ekki á strendur Íslands en hann kætti hóp ferðalanga 1500 kílómetra í burtu á strönd Grænlands. „Íslenzkur höfðingi fór fyrir hópnum og segir Jón lærði frá því að þegar hann og menn hans slátruðu dýrinu hafi þeir fundið járnspjótsodd merktan merki Ólafs innan í því. Þar sem mennirnir vissu að þeir gátu ekki fært Ólafi veiðina hans, átu mennirnir hvalinn og forðuðu sér frá hungri.“
Stórmerk og fallega myndskreytt frásögn sem Feykir mælir með.
- - - - -
Heimildir: www.hakaimagazine.com og Byggðasafn Skagfirðinga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.