Flóabardagi í Vatnsdalshólum | Listsýning í Listakoti Dóru
Á morgun, laugardaginn 6. júlí kl. 13:00, opnar Dóra Sigurðardóttir áhugaverða sýningu í galleríi sínu, Listakot Dóru, á jörð sinni á Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu, aðeins tvo kílómetra suður af Hringveginum. Sýningin sækir innblástur frá nágrenninu og í Flóabardaga, einn af frægustu bardögum Sturlungaaldar og einu sjóorrustuna sem háð hefur verið við Íslandsstrendur þar sem Íslendingar skipuðu bæði lið.
Þann 25. júní 1244 mættust á Húnaflóa lið Þórðar kakala Sighvatssonar, af ættum Sturlunga og Kolbeins unga Arnórssonar af ættum Ásbirninga. Nú í ár, árið 2024, eru liðin 780 ár frá Flóabardaga og af því tilefni koma tólf listamenn saman í Listakoti Dóru og sýna verk sín sem eiga skírskotun í þessa frægu sjóorrustu við Íslandsstrendur.
Eftirtaldir tólf listamenn sýna verk sín: Elísa Ósk Ómarsdóttir, Erla Einarsdóttir, Gudrun Kloes, Guðrún Ósk Aðalsteinsdóttir, Hólmfríður Dóra Sigurðardóttir, Inese Elferte, Morgan C.B., Óskar Guðmundsson, Rúnar, Sara Jóna Emilía, Þorgeir Gísli Skúlason og Þóra Einarsdóttir.
Margvísleg dagskrá á þjóðlegum nótum verður yfir opnunarhelgina. Klukkan 13:20 á laugardaginn mun Hilma Eiðsdóttir Bakken kveða rímur. Ásgeir Guðrúnarson Hólm verður einnig í Listakoti opnunarhelgi sýningarinnar, 6. og 7. júlí, og býður upp á nudd á staðnum. Hægt er að panta tíma hjá honum í gegnum síðu hans á Facebook - Ásgeir Guðrúnarson Hólm (AF Warwik). Þá mun Kvenfélag Svínavatnshrepps selja kakó og vöfflur á staðnum á opnunardeginum.
Sýningin er opin á opnunartíma Listakots Dóru, frá kl. 13:00 til kl. 18:00 alla daga nema mánudaga en sýningin sjálf stendur til 5. september.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.