Fjölgar í starfsliði Blöndustöðvar
Rekstur Blöndustöðvar gekk áfallalaust fyrir sig í vetur og snerist að miklu leyti um hefðbundið viðhald. Innrennsli í Blöndulón var hins vegar fremur lítið, því kalt var á hálendinu norðvestanlands; oft snjókoma en sjaldan rigning. Um leið kallaði mikil eftirspurn á mikla orkuvinnslu. Fyrir vikið fór vatnshæð Blöndulóns undir söguleg viðmiðunarmörk í byrjun apríl. Svipaðar aðstæður voru við Fljótsdalsstöð og urðum við því að hægja á orkuvinnslu og skerða afhendingu til stórnotenda. Staða Blöndulóns tók að batna síðasta vetrardag og var vinnsla stöðvarinnar í framhaldinu aukin um þriðjung. Skerðingum var svo aflétt í byrjun maí.
Í lok síðasta árs var Jónas Þ. Sigurgeirsson ráðinn stöðvarstjóri Blöndusvæðis, en starfinu hafði hann gegnt í afleysingum frá vorinu áður, samhliða starfi sínu sem viðhaldsstjóri. Kristófer Kristjánsson, sem áður starfaði í rekstri og viðhaldi Blöndustöðvar, tók við sem viðhaldsstjóri stöðvarinnar um síðustu mánaðamót, en fyrr í vetur fluttist Valdimar Jón Björnsson úr viðhaldi og rekstri Blöndustöðvar í nýtt starf tæknimanns sem sinnir bæði Blöndustöð og Laxárstöðvum. Við þessar breytingar losnuðu tvær stöður í rekstri og viðhaldi Blöndustöðvar og voru ráðnir í þær þeir Axel Eyjólfsson vélfræðingur og Björn Hallbjörnsson rafvirki.
Enn er unnið að deiliskipulagi Blöndustöðvar og standa vonir til þess að það verði kynnt í haust, seinna en upphaflega var áætlað.
Samstarf við Húnabyggð og Brunavarnir Austur-Húnvetninga
Nýverið gerðum við hjá Landsvirkjun samning við Húnabyggð vegna sumarvinnu ungmenna. Um er að ræða tilraun sem byggir á samstarfi við fyrrum Húnavatnshrepp. Samningurinn felur í sér að sumarvinnuhópur á snærum Blöndustöðvar mun sinna verkefnum fyrir Húnabyggð og hefur verið ráðinn verkstjóri yfir hópnum. Húnabyggð mun greiða Landsvirkjun fyrir vinnuframlagið. Ávinningur verkefnisins er margvíslegur; m.a. aukinn slagkraftur í stærri verkefnum, samnýting tækja og tóla, fjölbreyttari verkefni ungmennanna og sterkari tengsl þeirra á milli. Alls verða 23 ungmenni við störf í Blöndustöð í sumar. Þá gerðum við samning við Brunavarnir Austur-Húnvetninga um þjónustu við Blöndustöð. Mun slökkviliðið m.a. þjálfa starfsfólk Landsvirkjunar í brunamálum og halda sameiginlegar æfingar í stöðinni. Einnig felur samningurinn í sér stuðning vegna tækjakaupa Brunavarna Austur-Húnvetninga.
Fræðslumolakaffi á Blönduósi
Við efndum til viðburðar í félagsheimilinu á Blönduósi í marsmánuði. Á dagskrá voru erindi sem öll vörðuðu samspil orkuvinnslu og náttúru. Þorkell Lindberg Þórarinsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands, fjallaði um fuglarannsóknir á Steinárhálsi; Ingunn Sandra Arnþórsdóttir, héraðsfulltrúi Lands og skógar, sagði frá uppgræðsluaðgerðum á Eyvindarstaðaheiði og Andri Gunnarsson, verkefnisstjóri hjá Landsvirkjun, gerði jöklarannsóknum á vatnasviði Blöndu skil. Um 40 manns mættu í félagsheimilið en einnig var hægt að fylgjast með í beinu streymi.
Guðmundur Ögmundsson, Verkefnisstjóri nærsamfélags á Blöndusvæði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.