Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir jákvæðum rekstri í Húnabyggð

Sveitarstjórn Húnabyggðar áætlar að rekstur sveitarfélagsins árið 2024 verði jákvæður um 33 milljónir króna. Seinni umræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár fór fram á sveitarstjórnarfundi í vikunni. Í frétt á Húnahorninu segir að áætlað sé að heildartekjur verði 2.713 milljónir króna, rekstrargjöld 2.299 milljónir og afskriftir 146 milljónir. Gert er ráð fyrir að reksturinn verði jákvæður um tæpar 413 milljónir króna fyrir fjármagnsliði en að teknu tilliti til þeirra verður afkoman um 33 milljónir eins og fyrr segir.

„Veltufé frá rekstri er áætlað 299 milljónir á næsta ári og að afborganir langtímalána verði 291,5 miljónir. Fjárfestingar eru áætlaðar tæpar 328 milljónir króna og er gert fyrir að nýjar lántökur nemi um 300 miljónir króna.

Fulltrúar í minnihluta sveitarstjórnar lögðu fram bókun þar sem átalinn var seinagangur í nokkrum málefnum sveitarfélagsins sem varða fjárhagslega hagsmuni þess og þjónustu við íbúa en þau eru:

  1. Útboð vegna aksturs nemenda á starfsbraut FNV og gerð gjaldskrár varðandi þann akstur.
  2. Útfærsla og gerð reglna og fyrirkomulags vegna aksturs eldri borgara.
  3. Setning samþykkta um búfjárhald í þéttbýli.
  4. Yfirfærsla eigna milli sveitarfélagsins og Sjálfseignarstofnunar Grímstungu- og Haukagilsheiða (gangnamannaskálar).
  5. Gerð lokaskýrslu vegna Þrístapaverkefnisins.
  6. Vinna við að koma félagsheimilinu Húnaveri í langtímaleigu.
  7. Ísetning og frágangur glugga í Skólahúsi á Sveinsstöðum þar sem húsið liggur undir skemmdum.
  8. Vinna við stofnun lóða á Hveravöllum og auglýsing þeirra samkvæmt þjóðlendulögum.
  9. Tímabundin útleiga íbúða á Húnavöllum meðan ekkert gerist í sölumálum staðarins.
  10. Skipuleg eyðing minks og gerð samninga um vetrarveiði refs.
  11. Endurskoðun gjaldskráa og áætlun tekna ársins 2024 hjá Húnaneti ehf. og Fasteigna Húnavatnshrepps ehf.

Meirihluti þakkaði gagnlegar ábendingar um stöðu verkefna sveitarfélagsins og sagði að öll þessi verkefni væru nú þegar í vinnslu eins og fulltrúum minnihlutans væri fullkunnugt um vegna setu þeirra í byggðarráði.“

Heimild: Húni.is

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir