Fjallkonuhátíð í Skagafirði
Þann 7. september nk. verður haldin Fjallkonuhátíð í Skagafirði af Þjóðbúningafélagi Íslands í samvinnu við Pilsaþyt í Skagafirði og Annríki- þjóðbúningar og skart í Hafnarfirði. Feykir hafði sambandi við Ástu Ólöfu Jónsdóttur Pilsaþytskonu til að forvitnast af hverju verið er að halda Fjallkonuhátíð í Skagafirði. „Þegar upp kom sú hugmynd að halda minningu frumkvöðlanna á lofti þá kom Skagafjörður mjög fljótt inn í myndina vegna tengsla þessara frumkvöðla við fjörðinn,“ segir Ásta Ólöf.
Í ár eru 150 ár liðin frá andláti Sigurðar Guðmundssonar sem nefndur var Sigurður málari. Hann var fæddur á Hellulandi í Hegranesi og uppalinn í Skagafirði. Hann var mikill áhugamaður um íslenska búninga og hannaði m.a. skautbúninginn sem við þekkjum í dag. Hann var í samstarfi við Sigurlaugu Gunnarsdóttur frá Ási í Hegranesi sem m.a. saumaði elsta skautbúning sem varðveist hefur eftir fyrirmynd Sigurðar. Þriðji aðilinn sem við minnumst á hátíðinni er Guðrún Skúladóttir (1740-1816) dóttir Skúla Magnússonar sem var fædd á Ökrum í Blönduhlíð og var annáluð hannyrðakona og nefnd „blómstranna móðir“„Enn ein tengingin við Skagafjörð er svo í gegnum Pilsaþyt í Skagafirði þar sem margar af félagskonum þar eru félagar í Þjóðbúningafélagi Íslands.“ Tilgangur hátíðarinnar er að heiðra minningu frumkvöðlanna og kynna hina miklu búningahefð okkar íslendinga. Þjóðbúningar eru nefnilega svo miklu meira en upphlutur og peysuföt.
Hvaðan kemur áhugi þinn á þjóðbúningum og búningasaum? „Ég hef haft áhuga á þjóðbúningum frá unglingsaldri. Mamma saumaði sér upphlut fermingarárið mitt og ég klæddist honum 19 ára gömul á árshátíð Menntaskólans á Akureyri. Þá ákvað ég að svona búning ætlaði ég að eignast þegar ég yrði stór. Ég varð það hins vegar ekki (þ.e. stór) fyrr en ég var orðin fimmtug en þá lét ég sauma á mig 20. aldar upphlut sem ég hef sést í við hin ýmsu tækifæri síðan.“ Ásta Ólöf taldi sér trú um það þá að hún hefði ekkert í það að gera að sauma þetta sjálf. Í einhverju bríaríi datt henni svo í hug hausið 2013 að fara á námskeið í baldýringu og baldýra borða á barnaupphlut sem hún saumaði síðan í framhaldinu á barnabarn sitt og nöfnu á námskeiði hjá Annríki. Nú er daman orðin stór og amman byrjuð að sauma fullorðinsbúning á hana.
Dagskráin
Hátíðin hefst með opnun þjóðbúningasýningar á efri hæðinni í Miðgarði laugardaginn 7. september klukkan 11.00. Hún verður opin til klukkan 17.00. Klukkan 13.00 á laugardag hefst svo dagskrá í Miðgarði með erindum, umræðum, söng, kaffi og spjalli.
Aðgangur á hátíðina á laugardeginum er ókeypis og sömuleiðis á þjóðbúningasýninguna á laugardag og sunnudag. Á sunnudag er þjóðbúningasýningin opin frá 13:00 – 18:00. Klukkan 11:00 verður messa í Hóladómkirkju. Gísli Gunnarsson vígslubiskup á Hólum messar. Á eftir verður kaffi í Grunnskólanum á Hólum að hætti Kvenfélags Hólahrepps. Þar borgar hver fyrir sig.
Svo verður lagt upp í rútuferð um sögustaði í Skagafirði klukkan 14:00 Í þann viðburð þarf að skrá sig þar sem fjöldi verður takmarkaður. Hægt er að skrá sig í netfangi pilsathytur@gmail.com. Um allt þetta má lesa á facebook viðburði Fjallkonuhátíð í Skagafirði.
Það eru Menningarsjóður KS, Svf. Skagafjörður og Byggðasafn Skagafjarðar sem styðja við hátíðina auk þess sem verið er að afla styrkja víðar.
Fjallkonuhátíðin er opin öllum og vonumst til að sjá sem flesta og hvetjum fólk til að mæta í þjóðbúningum og hátíðarbúningum þó það sé alls ekki skilyrði.
Eftirtalin félög standa að hátíðinni
Þjóðbúningafélag Íslands hefur það að markmiði að efla þekkingu á íslenskum þjóðbúningum og skarti. Hópur á þeirra vegum fór t.d. á Ólafsvöku í Færeyjum núna í sumar og vakti mikla athygli.
Annríki – þjóðbúningar og skart er rekið af þeim hjónum Guðrúnu Hildi Rosenkjær klæðskera, kjólameistara og sagn- fræðingi og Ásmundi Kristjánssyni gullsmið. Hildur er hafsjór af fróðleik um íslenska búningahefð og hægt er að fá smá innsýn í hana í erindi hennar á hátíðinni. Þau Annríkishjón koma með glæsilega sýningu á þjóðbúningum af öllum stærðum og gerðum sem þarna verða til sýnis og verður hún eingöngu opin þessa helgi.
Pilsaþytur í Skagafirði er áhugamannafélag um notkun þjóðbúninga. Um er að ræða hóp af konum sem búa sig upp við hin ýmsu mögulegu og ómögulegu tækifæri og má segja að þeirra aðal markmið Pilsaþyts sé að fá fólk til að nota búningana.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.