FermingarFeykir kominn út
FermingarFeykir kom út í gær og er nú á leið inn um bréfalúgur áskrifenda. Venju samkvæmt er FF stútfullur af alls konar efni tengdu fermingum og spjallað er við bæði verðandi og fyrrverandi fermingarbörn. Þá má finna í blaðinu lista yfir fermingarbörn á Norðurlandi vestra og hina ómissandi verðlaunakrossgátu sem Palli Friðriks útbjó af alkunnri snilld [með einari].
Meðal efnis er viðtal við Hildi Ómarsdóttur, uppskriftasmið, en hennar ástríða að útbúa góðan mat. Hildur er vegan og hefur verið það sl. sjö ár en hún deilir með okkur nokkrum girnilegum vegan uppskriftum sem hægt er að notast við í fermingarveislunni eða fyrir notalega stund með góðum vinum. Nokkrir vel valdnir segja frá heitustu gjöfinni sinni á fermingardaginn og ýmislegt fleira. Þá má nefna að Aldís Fjóla Ásgeirsdóttir svarar Tón-lystinni og rætt er við Þórunni Ýr Elíasdóttur sem nýlega tók við starfi kaupfélagsstjóra hjá KVH.
Að þessu sinni er FermingarFeyki ekki dreift frítt í öll hús á Norðurlandi vestra eins og gert hefur verið undanfarin ár. Kemur það til í kjölfar þess að Pósturinn hækkaði kostnað við dreifingu á fjölpósti um áramótin þannig að aldreifing borgaði sig ekki. Auk áskrifenda fá þó verðandi fermingarbörn blaðið sent heim og þeir sem áhuga hafa á að nálgast blaðið þá verður að hægt að kaupa Feyki í helstu verslunum á Norðurlandi vestra. Auk þess verður hægt að fletta blaðinu hér á Feykir.is.
Það eru tvö myndarleg fermingarbörn sem prýða forsíðuna og raunar var ekki leitað langt yfir skammt í þetta skiptið. Stúlkan er Gígja Glódís Gunnarsdóttir, dóttir Gunnars Smára Reynaldssonar og Klöru Bjarkar Stefánsdóttur, uppsetjara á Nýprenti, en Glódís er nemandi við Árskóla á Sauðárkróki. Hins vegar er um að ræða Gísla Frank Traustason sem er sonur Trausta Traustasonar á Syðri-Hofdölum og blaðamanns Feykis, Gunnhildar Gísladóttur frá Álftagerði. Gísli er nemandi Varmahlíðarskóla.
Hægt er að fletta FermingarFeyki hér >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.