Er vopnaburður skólabarna vandamál á Norðurlandi vestra?
Vopnaburður skólabarna eða ungmenna hefur verið í umræðunni að undanförnu í kjölfar hræðilegrar hnífstunguárásar á Menningarnótt en Bryndís Klara Birgisdóttir, aðeins 17 ára gömul, lést af sárum sínum nú fyrir helgi. Svo virðist sem það sé orðið býsna algengt að ungmenni séu vopnuð hnífum, í það minnsta á höfuðborgarsvæðinu, en ætli þetta sé einnig vandamál á Norðurlandi vestra? Feykir sendi Lögreglunni á Norðurlandi vestra fyrirspurn.
Það voru Birgir Jónasson, lögreglustjóri Norðurlands vestra og Ásdís Ýr Arnardóttir, forvarnafulltrúi embættisins, sem sátu fyrir svörum.
Hafa ábendingar um vopnaburð skólanema og ungmenna borist inn á borð lögreglunnar á Norðurlandi vestra?„Slík mál hafa ekki borist inn á okkar borð í sama mæli og á höfuðborgarsvæðinu, við erum hins vegar alltaf á tánum því reynslan sýnir okkur að hegðun sem þessi hafi ákveðin smitáhrif og því líklegra en ekki að slík mál komi inn á okkar borð.“
Þau segja að aftur á móti sé reynt að reka öflugt forvarnastarf og lögð sé áherslu á að ná til foreldra og unga fólksins okkar, meðal annars í gegnum samfélagsmiðla og aukna sýnilega löggæslu. „Við teljum að smæð samfélagsins sé okkur í hag hvað þetta varðar, og samstarf við barnaverndaryfirvöld í umdæminu er með miklum ágætum, einmitt með það að markmiði að draga úr hvers konar áhættu- eða afbrotahegðun ungmenna. Við skipulag afbrotavarna í umdæminu reynum við meðal annars að greina áhættuþætti, þá er hagfellt til að mynda að horfa til reynslu unga fólksins okkar eins og hún birtist í rannsóknum en á sama tíma rýna í ýmsar hagtölur sem gefa okkur vísbendingar um það hvar við stöndum.“
Eðlilega eru landsmenn slegnir yfir þessum atburði á Menningarnótt. Auk Bryndísar Klöru voru drengur og stúlka stungin í árásinni en hinn grunaði árásarmaður er sjálfur aðeins 16 ára. Nú er kallað eftir þjóðarátaki til að koma í veg fyrir vopnaburð ungmenna og víða er Bryndísar Klöru minnst þessa dagana. Nemendafélag FNV boðaði bleikan dag í dag til minningar um hana og voru nemendur hvattir til að mæta í skólann í bleiku.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.