Er mest spennt fyrir Vilko-vöfflu-röltinu, brekkunni og ballinu

Helga Margrét ætlar í Vilko-vöfflu-röltið í það minnsta.
Helga Margrét ætlar í Vilko-vöfflu-röltið í það minnsta.

„Ég bý í eldri hlutanum á Blönduósi, eða upp á Brekku, með besta útsýnið,“ segir Helga Margrét Jóhannesdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur hjá HSN á Blönduósi, þegar Feykir bankar á vegg og spyr út í Húnavökuna. „Þessa dagana er ég að njóta sumarfrísins með fjölskyldu og vinum þar sem útilegur spila stóran þátt þetta árið. Þar að auki er ég að æfa fyrir hálfmaraþon og dunda mér við að prjóna peysur,“ bætir hún við.

Hvað ætlar þú að gera á Húnavöku í ár? „Ég ætla að breyta garðinum í tjaldsvæði og taka á móti vinum og fjölskyldu frá Akureyri. Svo er bara að fara um og njóta alls þess sem Húnavaka hefur upp á að bjóða. Ég er mest spennt fyrir vöfflu röltinu, brekkunni og ballinu.“

Ef Húnavaka væri kaka, hvernig kaka væri hún? „Hún væri skúffukaka með fullt af alls konar nammi ofan á. Ég þekki engan sem finnst skúffukaka vond og allir ættu að geta fundið sitt uppáhalds nammi.“

Hvenær var eftirminnilegasta Húnavakan? „Ég hef bara farið einu sinni á Húnavöku og það var í fyrra. Eftirminnilegast er stemmingin í brekkunni, bæði um daginn og kvöldið, og stuðið á ballinu.“

Hvernig lýsir þú Húnavöku í fimm orðum? „Skemmtileg, fjölskylduvæn, fjölbreytt, glaðleg og fjörug.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir