Vantar nákvæmari áætlanir kostnaðar og framkvæmdatíma
Lagt hefur verið fram erindi á fundum hjá Byggaðráði Skagafjarðar, Sveitastjórn Húnabyggðar og Sveitastjórn Skagastrandar frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, dags. 14. desember 2023, þar sem fram kemur að mennta- og barnamálaráðuneytið hefur óskað eftir því að samtökin taki að sér að samræma sjónarmið sveitarfélaga til samningsdraga vegna stækkunar verknámshúss Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
,,Áætlaður heildarkostnaður framkvæmdarinnar án stofnbúnaðar er á bilinu 637-1.010 milljónir króna samkvæmt frummati Framkvæmdasýslu ríkisins - Ríkiseigna, dags. 17. nóvember 2023, sbr. viðauki I, og er miðað við verðlag í október 2023. Óvissa á þessu stigi forathugunar er metin á bilinu 50% til -30%, en heildarkostnaður mun ráðast af þeim tilboðum eða samningum sem gerðir verða um framkvæmdina.
Skipting kostnaðar og eignarhlutföll í nýbyggingum verða:
Ríkissjóður 60,00%
Húnaþing vestra 6,771%
Sveitarfélagið Skagaströnd 2,605%
Skagabyggð 0,479%
Húnabyggð 6,970%
Skagafjörður 23,175%"
Í fundargerð Byggðarráðs Skagafjarðar sem fagnar framkomnum samningsdrögum segir um löngu tímabæra framkvæmd að ræða þar sem í mikið óefni er komið í verknámi skólans vegna plássleysis. Byggðarráð minnir á að stækkunin er í raun framkvæmd sem slegið var á frest árið 2008 þegar verknámsaðstaða skólans var aðeins stækkuð um u.þ.b. þriðjung þess sem fyrirhuguð stækkun átti að vera.
Byggðarráð hins vegar undrast þá miklu óvissu sem ennþá er í kostnaðaráætlun um viðbyggingu verknámshúss FNV sé litið til samningsdraga og hvetur Framkvæmdasýsluna til að vinna nákvæmari áætlun, bæði m.t.t. kostnaðar og einnig tímaramma framkvæmda. Byggðarráð samþykkir engu að síður þátttöku í verkefninu og felur sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga áður en undirritaður verður samningur þar að lútandi.
Í fundargerð hjá Húnabyggð kemur fram að Sveitarstjórn undrast það breiða bil kostnaðar sem áætlað er að af framkvæmdinni hljótist og hvetur Framkvæmdasýsluna til að vinna nákvæmari áætlun hið fyrsta. Sveitarstjórn sér sér ekki fært að undirrita samninginn fyrr en nákvæm kostnaðaráætlun liggur fyrir.
Í fundargerð Sveitarfélagsins Skagastrandar segir að miðað við þá kostnaðarskiptingu sem tilgreind er í samningsdrögunum mun kostnaður Sveitarfélagsins Skagastrandar við framkvæmdina vera á bilinu 16 millj. kr. til 26 millj. kr. en ríkið ber, skv. 47. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, 60% kostnaðar en sveitarfélögin sem aðilar eru að skólanum 40%.
Sveitarstjórn Skagastrandar samþykkir samhljóða með 5 atkvæðum að taka þátt í viðbyggingu við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og felur starfandi sveitarstjóra að undirrita samning þar um. Afstaða til mögulegrar breytingar á fjárhagsáætlun verður tekin þegar upplýsingar um nákvæmari kostnaðaráætlun liggur fyrir sem og áfangaskipting greiðslna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.