Sigur í gær
Með hækkandi sól og nýjum mánuði var langþráður sigurleikur hjá Tindastól í Subwaydeildinni í gærkvöldi. Breiðablik heimsótti Síkið og bauð uppá hörku leik.
Gestirnir voru yfir í hálfleik og voru með yfirhöndina í leiknum í þrjá leikhluta. Þegar fjórði leikhluti hófst var loftið orðið rafmagnað í Síkinu og ekki laust við að örvænting væri um það bil að grípa áhorfendur, þegar Tindastólsvélin hrökk í gang og þeir settu 22 stig í röð. Breiðablik hafði þó ekki sagt sitt síðasta og undir lokin náði spennan hámarki þegar staðan var orðin 92-90. Leikurinn endaði þó Tindastóls megin og lokatölur í leiknum 96-90. Mikilvægur sigur fyrir Tindastólsmenn svo vægt sé til orða tekið, eftir nokkra tapleiki í röð. Janúar var brekka en núna er allt uppá við. Blaðamaður á erfitt með að skrifa þessi síðustu orð, því ef einhver íþrótt er óútreiknanleg þá er það körfubolti.
Næsti leikur hjá meistaraflokki kvenna er í dag, föstudag kl. 17:45 á móti ÍR í Skógarseli.
Næsti leikur hjà strákunum er á móti Stjörnunni, fimmtudaginn 8. febrúar kl. 19:15 í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ.
ÁFRAM TINDASTÓLL !!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.