Draumahátíð handavinnuelskenda

Svanhildur Pálsdóttir.MYND AÐSEND.
Svanhildur Pálsdóttir.MYND AÐSEND.

Nú er framundan allsherjar prjónagleði á Blönduósi. Hátíð sem hefur skipað sér fastan sess í viðburðadagatali sumarsins í Húnabyggð. Er þetta í áttunda sinn sem hátíðin verður haldin um komandi helgi 7.- 9. júní. Þegar mikið stendur til er nauðsynlegt að taka stöðuna fyrir helginni og heyrði blaðamaður í Svanhildi Pálsdóttur viðburða – og markaðsstjóra Textilsmiðstöðvar Íslands í nýjasta tbl. Feykis. 

Svanhildur segir okkur að markmið Prjónagleðinnar sé að gefa prjónafólki tækifæri til þess að sameinast í áhugamáli sínu, læra eitthvað nýtt, kaupa garn og upplifa skemmtilega stemningu. Það myndast alltaf alveg sérstakt andrúmsloft þessa helgi á Blönduósi. Bærinn fyllist af prjónandi konum, að mestu leyti, sem greinilega eru að skemmta sér konunglega. Jákvæðni, gleði og skapandi andrúmsloft einkennir hátíðina sem stækkar með hverju árinu.

Prjónagleðin byggist upp á prjónanámskeiðum, fyrirlestrum um prjón og hönnun og svo Garntorginu sem haldið er í Íþróttamiðstöðinni. En Garntorgið er garnmarkaður þar sem framleiðendur og hinir ýmsu söluaðilar selja prjóna- og handavinnufólki garn og alls konar fjölbreyttar vörur sem prjónarar geta ekki verið án.

Á Garntorginu er einnig risastór setustofa og kaffihús sem verður rekið af Apótekarastofunni að þessu sinni. Á prjónakaffihúsinu situr fólk og prjónar, spjallar og nýtur góðra veitinga.

„Það er nóg um að vera og alls kyns prjónatengdir viðburðir eru í gangi alla helgina og má þar nefna prjónahittinga í heimahúsum á fimmtudagskvöldið, opið hús í Ullarþvottastöðinni á föstudaginn, söguprjónagöngu um gamla bæinn á laugardaginn og

Prjónagleðikvöldvöku á Krúttinu á laugardagskvöldinu. Á sunnudaginn er prjónamessa í Blönduóskirkju og dagskránni lýkur með samprjóni í sundi áður en fólk heldur heim á leið um miðjan daginn,“ segir Svana.

Hún segir eiginlega ekki hægt að nefna neina hápunkta hátíðarinnar aðra en samveruna með prjónana og gleðina sem einkenna þessa helgi. Prjónagleðin er einstakur viðburður á landsvísu, þar sem nokkur hundruð manns koma saman og prjóna af kappi og innlifun. „Prjónagleðin er fyrir öll þau sem prjóna og hafa áhuga á prjónaskap og annarri handavinnu. Við gleðjumst með öllum sem prjóna. Það skiptir ekki máli á hvaða aldri þú ert eða hvar þú ert staddur í prjóninu, það eru öll velkomin og standa jafnfætist á Prjónagleðinni. “

„Viðburður eins og þessi þarf á stuðningi nærsamfélagsins að halda og hann er mestur með því að mæta og taka þátt. Þess vegna hvetjum við fólk úr ná- grannabyggðarlögum til þess að líta við á Blönduósi um helgina og upplifa stemminguna og mannlífið á Prjónagleðinni,“ segir Svana að lokum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir