Brauðréttur og súkkulaðikaka

Ingunn Sandra og Birgir Ingvar með Rúrik Leví og Anneyju Evu. MYND AÐSEND
Ingunn Sandra og Birgir Ingvar með Rúrik Leví og Anneyju Evu. MYND AÐSEND

Matgæðingar í tbl 27, 2023, voru þau Ingunn Sandra Arnþórsdóttir og Birgir Ingvar Jóhannesson. Ingunn er fædd og uppalin á Sauðárkróki en Birgir á Hofsósi en þau búa nú á Sauðárkróki. Ingunn er í fæðingarorlofi eins og er en vinnur hjá Landgræðslunni og Birgir vinnur hjá Vinnuvélum Símonar. Ingunn og Birgir eiga saman tvö börn, Rúrik Leví 6 ára og Anneyju Evu eins og hálfs árs.

„Við erum meira fyrir það að baka og bjóða fólki í kaffi og kökur en mat svo við ætlum að deila með ykkur uppskriftum sem við bjóðum upp á í afmælum og öðrum veislum. Heiti rétturinn slær alltaf jafn mikið í gegn og allir þeir sem smakka hann biðja um uppskriftina svo okkur fannst kjörið að setja hana hér inn. Súkkulaðikakan er ótrúlega einföld og rosalega góð og slær einnig alltaf í gegn,” segir Ingunn. 

UPPSKRIFT 1
Brauðréttur með ostafyllingu og snakki

    10 stk. pylsubrauð

Fylling:
    10 stk. sveppir (10-15 stk.)
    1 stk. gul paprika
    1 stk. rauð paprika
    1 stk. Mexíkóostur, rifinn
    1 stk. smurostur með sveppum
    1 pk skinka
    1½ l rjómi frá Gott í matinn
    2 stk. grænmetisteningar
    30 g smjör til steikingar

Toppur:
    1 poki rifinn mozzarellaostur frá Gott í matinn
    1 snakkpoki

Aðferð: Grænmetið er skorið í smáa bita, sett á pönnu og steikt upp úr smjöri ásamt skinkubitunum. Smurostur, rjómi, Mexíkóostur (gott að rífa ostinn niður) og gænmetisteningar hitaðir í öðrum potti þar til allt hefur bráðnað og samlagast. Pylsubrauðin eru skorin í tvennt, þannig að tveir „bátar“ myndast. Fyllingin sett ofan á hvern bát og rifinn ostur þar yfir. Þá er hver bátur skorinn í þrennt en reynt að halda löguninni. Hitað í ofni við 180°C í fimm mínútur, tekið út, snakkið sett yfir og hitað aftur í um þrjár mínútur. Sett á fallegan bakka og borið fram. (Uppskrift frá frá gottimatinn.is)

EFTIRRÉTTUR
Frönsk súkkulaðikaka með pekanhnetum og heitri karmellusósu

    80 g smjör
    100 g suðusúkkulaði
    3 egg
    3 dl sykur
    1 tsk. vanilludropar
    1½ dl hveiti
    1 tsk. salt

Aðferð: Stillið ofninn á 175°C með blæstri. Bræðið saman smjör og súkkulaði í potti við vægan hita. Þeytið egg og sykur mjög vel saman þar til blandan er létt og ljós. Bætið hveiti og salti varlega saman við eggjablönduna. Bætið súkkulaðinu að lokum út í. Hellið í bökunarform (ég notaði 22 cm) og bakið í 15 mínútur í ofninn. Gerið karamellusósuna á meðan. Eftir 15 mínútur takið þá kökuna úr ofninum stráið pekanhnetum yfir og hellið síðan karamellusósunni yfir allt og látið aftur inn í ofn í 20 mínútur.

Karamellusósa:
    60 g smjör
    1 dl púðursykur
    2 msk. rjómi
    100 g pekanhnetur, grófsaxaðar

Aðferð: Bræðið púðursykur og smjör saman í potti. Þegar þetta hefur blandast vel saman, bætið þá rjómanum út í og hrærið í um mínútu. (Uppskrift frá grgs.is)

Verði ykkur að góðu!

Ingunn Sandra og Birgir Ingvar skoruðu á Kristin Björgvinsson og Sunnu Björk Atladóttur að taka við boltanum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir