Ásgeir á Blönduósi á sunnudaginn

Ásgeir í Sauðárkrókskirkju sumarið 2020. MYND: ÓAB
Ásgeir í Sauðárkrókskirkju sumarið 2020. MYND: ÓAB

Tónlistarmaðurinn Ásgeir hefur verið á ferð um landið síðustu daga en tónleikaferðin hans, Einför um Ísland, hófst í Landnámssetrinu í Borgarnesi í síðustu viku. Ásgeir, sem eins og flestir ættu að vita að er frá Laugarbakka í Húnaþingi vestra, mætir í Félagsheimilið á Blönduósi sunnudagskvöldið 7. júlí. Tónleikarnir hefjast kl. 21 og Ásgeir tjáði Feyki að enn væri hægt að krækja í miða á Tix.is.

Þetta verða ekki einu tónleikarnir hans á Norðurlandi vestra því Ásgeir mætir á heimavöllinn sinn, Ásbyrgi á Laugarbakka, þann 20. júlí. Í gær var hann á Seyðisfirði, annað kvöld verður hann á Neskaupstað, á Húsavík á föstudag og í Hofi á Akureyri næstkomandi laugardagskvöld. Tónleikar með Ásgeiri eru einstök upplifun með hreint mögnuðum tónlistarmanni.

Í viðtali við Ásgeir sem mun birtast í Feyki nú síðar í júlí kemur m.a. fram að hann verði einn á sviðinu en ekki einn á ferð. „Gestur Sveinsson er á hljóðinu og ljósunum og kærasta mín, Karítas Óðinsdóttir, hjálpar til með ýmislegt líka. Tónleikagestir mega búast við rólegum en dínamískum tónleikum. Ég er með alls konar dót uppá sviði, þrjá gítara, hljómborg og trommuheila og hoppa á milli hljóðfæra. Þannig settið verður nokkuð fjölbreytt,“ segir Ásgeir.

Þú heimsækir sniðuga staði á sumartúrnum í ár, suma litla. Finnst þér þægilegra að koma fram á minni stöðum en stórum? „Það er að mörgu leiti þægilegra og skemmtilegra. Meiri nánd við fólk og allt verður persónulegra. Ég get hitt fólkið eftir tónleika og spjallað, náð meiri tengingu.“

Tekurðu ný lög og er ný plata á leiðinni? „Ég hef verið að spila 3-4 ný lög. Það er plata í bígerð en ekki alveg víst hvenær hún kemur út. Það er gaman að flytja nýtt efni fyrir fólk sem er að heyra lögin í fyrsta skipti,“ segir Ásgeir sem hlakkar mikið til að koma á Blönduós og spila.

Hér er hægt að nálgast miða á Tix.is >

Dreaming með Ásgeiri >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir