Ánægja með niðurstöðu sameiningarkosninganna

„Við erum ótrúlega ánægð með niðurstöðuna og að hún hafi verið svona afgerandi. Það er mikil vinna sem liggur að baki en verkefnið samt rétt hafið. Við förum bjartsýn inn í framtíðina í sameinuðu sveitarfélagi og við hlökkum til að takast á við þetta nýja og spennandi verkefni,“ sagði Pétur Bergþór Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar, þegar Feykir leitaði viðbragða hjá honum við niðurstöðu sameiningarkosninga Húnabyggðar og Skagabyggðar en úrslit voru kunngjörð síðastliðið laugardagskvöld.

Í Skagabyggð var kjörsókn 92,5 prósent. Alls greiddu 62 atkvæði en 67 voru á kjörskrá. Já við sameiningu sögðu 47, nei sögðu 15. Í Húna-byggð var kjörsókn 37,1 prósent en alls greiddu 355 atkvæði, 955 voru á kjörskrá. Já við sameiningu sögðu 317 en 36 sögðu nei. Auðir og ógildir seðlar voru 2.

1. ágúst færist stjórnsýsla Skagabyggðar undir Húnabyggð

„Með þessa met kjörsókn hjá Skagabyggð, 92,5% og afgerandi afstöðu íbúa, 75,8%, er ég alveg gríðarlega ánægð,“ sagði Erla Jónsdóttir, oddviti Skagabyggðar, þegar Feykir spurði hana hvort hún væri sátt við úrslit kosninganna.

Hvað gerist í kjölfarið á þessari niðurstöðu, þarf til dæmis að kjósa í sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags á ný? „Það sem gerist er að 1. ágúst færist stjórnsýsla Skagabyggðar undir Húnabyggð og stofnuð verður sérstök nefnd með fyrrum sveitarstjórnarmönnum Skagabyggðar sem mun kallast heimastjórn Skagabyggðar og mun hún starfa út kjörtímabilið. Það verða því engar sveitarstjórnarkosningar fyrr en við næstu almennu sveitarstjórnarkosningar.“

Hvaða breytingar verða hjá íbúum Skagabyggðar við sameiningu, sækja börn t.d. aðra skóla en hingað til? „Það verða í raun engar sérstakar breytingar, þau börn eða foreldrar sem vilja frekar sækja skóla á Skagaströnd áfram hafa heimild til þess að sækja um það til Sveitarfélagsins Skagastrandar en ef ekki þá munu þau öll fara í skóla á Blönduósi. Síðasta skólaár skiptust börnin nokkuð jafnt á milli þessara skóla,“ sagði Erla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir