73 umsóknir hlutu styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra
Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra auglýsti í september eftir umsóknum á sviði menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar fyrir árið 2024, með umsóknarfresti til 1. nóvember. Í frétt á vef SSNV segir að alls hafi borist 103 umsóknir þar sem óskað var eftir 221 milljón króna, en til úthlutunar úr sjóðnum fyrir 2024 voru rúmar 79 milljónir króna.
Yfirferð úthlutunarnefndar og fagráða sjóðsins yfir umsóknirnar lauk 5. desember en þá voru niðurstöður sendar til umsækjenda. Alls fengu 73 umsóknir brautargengi, samtals að upphæð 79 millj. kr. Fjármagn Uppbyggingarsjóðsins er hluti af samningi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra við stjórnvöld um framkvæmd Sóknaráætlunar Norðurlands vestra 2020-2024.
Á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar fékk 21 umsókn styrk, samtals að upphæð 40 millj. kr. Þau verkefni sem hlutu hæstu styrkina í þeim flokki voru: Skógarplöntur - gróðrastöð í Húnaþingi vestra (kr. 4.926.500), Ræktun burnirótar með Aeropnic (kr. 3.795.000), Ný framleiðsluaðferð Sæbjúgu - Losun þungmálma (kr. 4.416.562), Stafræn leiðsögn um sögustaði á Norðurlandi vestra (kr. 2.500.000), Vasareiknir (kr. 2.500.000). Þetta voru þau verkefni sem fengu tvær og hálfa milljón í styrk eða meira.
Á sviði menningar var samþykkt að styrkja 52 umsóknir með 38,5 millj. kr. en eftirtöld verkefni hlutu milljón eða meira í styrki: Ekkert helvítis frí (kr. 1.250.000), Söguferðaþjónusta í Skagabyggð (kr. 1.200.000), Dansskóli Menningarfélags Húnaþings vestra (kr. 1.000.000), Jólin heima (kr. 1.500.000), Heimatónleikar í Sæluviku - tónlistarhátíð (kr. 1.300.000), Tindastuð (kr. 1.500.000), Rafræn miðlun rannsókna Selaseturs á snertiskjá (kr. 1.000.000), Hvammstangi International Puppetry Festival 2024 (kr. 1.000.000) og Public Art Project 2024 (kr. 1.000.000). Þá má geta þess að tvö verlefni Leikfélags Sauðárkróki á árinu fengu samtals eina og hálfa milljón í styrk.
Stofn- og rekstrarstyrkir eru veittir til safna, setra og listamiðstöðva á sviði menningarmála. Styrkur er ákvarðaður út frá þeirri upphæð sem óskað var eftir og með það í huga hvert listrænt og menningarlegt gildi viðkomandi reksturs er fyrir svæðið. Að þessu sinni hlutu ellefu aðilar rekstrarstyrki en þeirra hæstir voru styrkir til Kakalaskála (kr. 1.600.000), Menningarfélagsins Spákonuarfs (kr. 1.100.000), Selaseturs Íslands (kr. 1.600.000), Sýndarveruleika ehf - 1238 Baráttan um Ísland (kr. 1.400.000) og Handbendi brúðuleikhús ehf. (kr. 1.600.000).
Viljum áfram sjá blómlegar byggðir
„Við hvetjum íbúa svæðisins til að kynna sér þau verkefni sem hafa hlotið styrk úr Uppbyggingarsjóði, sækja viðburði eins og hægt er, fylgjast með atvinnu- og menningarlífi og að sjálfsögðu að hafa samband við ráðgjafa SSNV varðandi þau verkefni sem þeir eru sjálfir með í burðarliðnum. Okkur er ekkert að vanbúnaði og hér viljum við áfram sjá blómlegar byggðir og öflugt atvinnulíf,“ segir Katrín M. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, m.a. í greinargerð um styrkhafa Uppbyggingarsjóð Norðurlands vestra 2024 sem lesa má hér >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.