Skagfirðingar sem búa í Grindavík - Ágústa Jóna Heiðdal og Þorfinnur Gunnlaugsson
Við höldum áfram að heyra í Skagfirðingum í Grindavík og að þessu sinni er það Ágústa Jóna Heiðdal, dóttir Kristrúnar Sigurðarsdóttur (Dúdda Sig). Ágústa hefur búið ásamt eiginmanni sínum Þorfinni Gunnlaugssyni og syni þeirra, Mikael Màna 13 ára, í Grindavík í um 15 ár. Aðspurð hvernig líðan þeirra sé segir Ágústa að hún sé bara hálfdofin ennþá, eiginlega ekki að trúa því að þau séu í þessari stöðu.
En hvernig gekk að finna samastað eftir að rýming hófs, voru þið farin áður en bærinn var rýmdur? ,,Ég var búin að vera í sambandi við eina yndislega frænku mína um hvort við mættum koma til þeirra ef kæmi til rýmingar þannig að já við vorum í góðum màlum með það og erum þar núna og það er hugsað virkilega vel um okkur.“ Ágústa og Mikael voru farin um klukkutíma áður en rýmingin hófst og voru því heppin að þurfa ekki að flýta sér út úr bænum en Þorfinnur er í Slökkviliði Grindavíkur og þurfti því að vera eftir og vinna í rýmingunni, hann kom því ekki til þeirra fyrr en morguninn eftir.
Hafið þið fengið að fara aftur heim til að sækja eitthvert dót? ,,Já það er búið að hleypa fólki heim að sækja og Þorfinnur sá um það, að fara heim og kíkja á húsið og ná í smá sem við vildum hafa með okkur,“ segir Ágústa.
Var mikið tjón heima hjá ykkur áður en þið yfirgáfuð heimilið? Nei ekkert sjáanlegt tjón sem maður er hissa á því því þessir skjálftar voru eitthvað annað og húsið hristist og hoppaðist til. En við erum þakklát fyrir að húsið sé heilt ennþá.
Hvernig er staðan næstu vikur hvað varðar skóla og vinnu. Vitið þið eitthvað, er hægt að gera einhver plön í svona mikilli óvissu? ,,Úff við vitum ekki neitt, eins og staðan er núna þá er Þorfinnur að sinna störfum með slökkviliðinu en jafnframt rekur hann fyrirtæki sem nú er einungis í Keflavík en hluti af því var í Grindavík líka. Ég vinn á leikskóla og það hafa ekki komið neinar upplýsingar um hvernig það verður þegar þetta er skrifað. Mikael okkar bíður bara eftir upplýsingum um skólamálin og reynir að vera duglegur að hitta vini sína og mæta à fótboltaæfingar. Nei það er ekkert hægt að plana í þessari stöðu, við vitum ekkert hvað gerist,“ segir Ágústa að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.