Dreymdi um að vera Tico Torres / VALUR FREYR
Það er bara þannig að nýi slökkviliðsstjórinn á Hvammstanga er Hvanndalsbróðir. Við erum sem sagt að tala um Val Frey Halldórsson (árgangur 1974) trommara og söngvara. Hann gengst við því að vera hreinræktaður Akureyringur. „Alinn upp á Brekkunni og síðar Þorpari, stundum KA maður en lang oftast Þórsari. Heimasætan í Lækjarhvammi dró mig á hvítum skóm í sveitina – er enn í hvítum skóm.“ Nú býr Valur á Hvammstanga.
Spurður út í helstu afrek sín á tónlistarsviðinu segir hann það vera að stofna Hvanndalsbræður með Rögga og Summa árið 2002 en þeir bræður hafa skilað af sér níu plötum og höfnuðu í þriðja sæti í undankeppni Júróvisjón árið 2010. „Ég hef spilað vel yfir 300 tónleika með Hvanndals og einhver böll um allt land ásamt óteljandi útihátíðum. Stofnaði Killer Queen cover band 2013 með Magna og Summa vini mínum og við erum enn að, eigum að baki 70 tónleika um allt land. Stofnaði Hljómsveit mannanna 2022 með þeim strákum og við erum að taka upp nýtt efni ásamt því að túra reglulega með Þórhalli Sig (Ladda) um landið“ segir Valur en hann hefur að auki tekið þátt í alls konar tónlistartengdum verkefnum sem session spilari og söngvari einnig.
Hvað er í deiglunni? „Framundan eru áframhaldandi upptökur í stúdíói og sjónvarpi með Ladda, tónleikar á Egilsstöðum, Selfossi, Akureyri og Hafnarfirði á næstunni. Árið er skynsamlega bókað fram að áramótum.“
Hvaða lag varstu að hlusta á? „Ég pant spila á gítar með Ladda fyrir upptökur.“
Uppáhalds tónlistartímabil? „Ninetees er alltaf í uppáhaldi.“
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? „Ný íslensk tónlist og góður metall í bland er hressandi.“
Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? „Akkúrat núna er það Disaster með nýlegri hljómsveit af Snæfellsnesinu sem heitir HYLUR… mæli með!“
Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvað lag tækjuð þið? „Auðvelt – Freddy Mercury og myndi taka með honum My Way með Frank Sinatra, viss um að það yrði epískt.“
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? „Alls konar, eins og Queen Ríó Tríó og BoneyM en mikill Jazz líka. Mér finnst Jazz frekar leiðinlegt lag (sorry Jónsi)… Flúði þá yfirleitt í bílskúrinn, setti á mig headphones og spilaði á trommurnar eftir Skid Row eða Bon Jovi á meðan ósköpin gengu yfir.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? „Minnir að það hafi verið Týnda kynslóðin með Bjartmari.“
Hvaða græjur varstu þá með? „Gamlan plötuspilara og Pioneer græjur sem ég fékk í fermingargjöf.“
Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? „She´s Gone með Steelheart náði mér á fyrsta tóni og hefur alltaf verið greipt í hugann eftir það... Söngurinn maður!“
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? „Yatsy með Stjórninni.“
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? „Teknó eins og Sigrún frænka spilar iðulega þegar á að vera gaman. Það yrði án efa fyrir valinu í dag.“ 8)
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? „Veru Illuga eða annað gott podcast. Í sannleika sagt spila ég tónlist orðið ein-göngu þegar ég er að hreyfa mig meira en góðu hófi gegnir. Annars er podcastið númer eitt í dag.“
Hvaða Bítlalag hefðir þú viljað hafa samið? „Let it Be vegna þess að það er allt svo fallegt við það lag.“
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? „Ég færi í dag beint til Vegas með frúnni á tónleika með U2 eða Muse í glænýja höll sem heitir The Sphere… Vinsamlega gúgglið þessa höll…“
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? „Sálin og Ný Dönsk. Summi vinur minn vildi samt aðallega Síðan skein sól.“
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? „Sem strákur vildi ég vera Tico Torres, trommarinn í Bon Jovi. Í dag þakka ég guði fyrir að fá að vera bara ég.“
Hvaða plata hefur skipt mestu máli í þínu lífi og hvers vegna? „Sú plata sem náði mér hvað mest er Ágætis Byrjun með Sigurrós en veit ekki hvers vegna. Það bara gerðist eitthvað þegar ég renndi henni fyrst. Hún situr alltaf á toppnum þó svo ég spili hana ákaflega lítið í dag. Súper snilld þessi plata í réttu umhverfi og hugarástandi.“
- - - - -
Sexmest spiluðu lögin í síma Vals:
Inuendo/ Queen
Deutschland / Rammstein
Forever and One / Helloween
Disaster / Hylur
She´s Gone / Steelheart
X / Hvanndalsbræður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.