Íslandsmót og samhjólreiðar um helgina á Norðurlandi vestra

Mynd tekin af netinu
Mynd tekin af netinu

Um helgina verður mikil hjólaveisla í Skagafirði og í Húnavatnssýslu því Íslandsmótin í bæði tímatöku (TT) og götuhjólreiðum (RR) fara fram í Skagafirði. Þá verður einnig samhjól í Húnabyggð á Rabarbarahátíðinni og má því búast við einhverjum töfum á umferð. Lögreglan á Norðurlandi vestra hvetur alla vegfarendur til að sýna aðgæslu og skipuleggja ferðir sínar eftir bestu getu, út frá tímasetningum hjólareiðafólksins.

Íslandsmótið í tímatöku (TT) fer fram, föstudaginn 28. júní, á Hólavegi nr. 767 í Skagafirði. Ræsing verður á Hólum og farið veg nr. 767 út að Siglufjarðarvegi nr. 76 þar sem er snúningspunktur og svo er hjólað til baka, alls 21 km. Fyrsta ræsing er kl. 19:00 en alls eru 20 keppendur í níu flokkum að keppa frá fjórum hjólreiðafélögum. 

Samhjól í Húnabyggð verður laugardaginn 29. júní og ræst er út frá Gamla bænum á Blönduósi kl. 9:00. Hjólað verður í kringum Svínavatn.

Íslandsmótið í götuhjólreiðum (RR) fer fram sunnudaginn 30. júní á Þverárfjallsvegi nr. 73 í Skagafirði. Allir flokkar verða ræstir út frá Strandveginum á Sauðárkróki, nánar til tekið bak við Hús frítímans og er fyrsta ræsing kl. 9:00 og alls eru 34 keppendur í sjö flokkum að keppa frá fimm hjólreiðafélögum. 

Íslandsmótin í Skagafirði eru haldin og skipulögð af Hjólareiðafélaginu Drangey í samstarfi við Akureyrardætur og Breiðablik.

    

 

 
 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir