Rostungurinn mættur í þriðja skiptið
Það verður að teljast líklegt að einn nýbúi á Króknum fái óskipta athygli gesta skemmtiferðaskipsins Azamara Journey. Það hefur ekki farið framhjá mörgum að rostungur hafi gert sig heimakominn í smábátahöfninni á Sauðárkróki síðustu daga. Tvívegis hafði hann heimsótt höfnina, fyrst sl. fimmtudagskvöld og dvaldi í um tvo daga og síðan mætti hann á ný á mánudagskvöldið og lá þá á grjótgarði í smábátahöfninni. Hann dvaldi ekki jafn lengi þar enda kannski ekki eins þægilegur staður. Skömmu áður en skemmtiferðaskipið lagðist að bryggja í morgun skreið rostungurinn upp á flotbryggjuna og kom sér vel fyrir enn á ný.
Fólk pælir í því hvort um sama rostunginn hafi verið að ræða í þessi þrjú skipti sem hann hefur heimsótt höfnina. Í Feyki sem kom út í gær var vitnað í samtal við Ingólf Sveinsson, sem marga fjöruna hefur sopið, en hann segist einungis hafa séð þrjá rostunga á sinni löngu ævi á Skagafirði. Það er því kannski ólíklegt að þeir séu margir á sveimi þetta sumarið í Skagafirði þó fregnum af ferðum rostunga hér við land fari fjölgandi.
Lögreglan hefur biðlað til fólks að sýna skynsemi og nærgætni í tilefni af „landgöngu“ rostungs í smábátahöfninni á Sauðárkróki. Bryggjan hefur jafnan verið girt af þegar rostungurinn hefur mætt til leiks og mælst er til þess þær lokanir séu eindregið virtar og að friðhelgi dýrsins sé virt. Er almennt mælst til þess að enginn fari nær dýrinu en 100 metra, enda um villt dýr að ræða sem ekki er vant samgangi við mannfólk.
Rostungar við Ísland
Á Wikipedia segir að Atlantshafsbrimlarnir séu um þrír metrar á lengd og vega 800 til 1000 kg en urturnar um 2,5 metrar og vega 600 til 800 kg. „Rostungar eru nú á tímum sjaldgæfir flækingar við Íslandsstrendur. Talsverðar beinaleifar rostunga hafa þó fundist á Íslandi, einkum á Vesturlandi. Sýnt er því að rostungar voru tíðir flækingar við strendur Íslands allt fram á 19. öld, þó aðallega á Vestfjörðum, Snæfellsnesi og við sunnanverðan Faxaflóa.
Engar ritaðar heimildir eru til um rostunga eða rostungaveiðar á landnámsöld. Frásagnir af komum rostunga hingað virðast síðan aðeins heyra til undantekninga. Hins vegar eru allnokkur örnefni sem benda til þess að rostungar hafi ekki verið mjög sjaldgæf sjón hér við land fyrr á öldum. Rostungur var í upphafi Íslandsbyggðar nefndur rosmhvalur og eru Romshvalanes eða Rosmhvalanes á fleiri en einum stað og þar að auki eru nokkur Hvallátur og örnefnið Urthvalafjörður sem talið er að eigi við rostunga en ekki hvali.“
Hvað á rostungurinn að heita?
Ýmsir hafa pælt í því hvað kalla skuli íbúann. Nefnd hafa verið til sögunnar nöfn eins og Lalli, Ranni rostungur og jafnvel Arnold í tilefni þess að hann kemur alltaf aftur líkt og persóna Arnolds Schwazenegger í The Terminator. Hvað segja lesendur Feykis?
/PF og ÓAB
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.