Viktor Smári ánægður með lífið í Hæfileikamótun N1 og KSÍ

Viktor Smári í Miðgarði í Garðabæ. Myndirnar sem fylgja eru teknar af pabba hans, Davíð Má Sigurðssyni – nema myndin af stelpunum þremur er fengin af heimasíðu Tindastóls. Þar má sjá Elísu Bríeti, Birgittu Rún og Kötlu Guðnýju sem tóku þátt í Hæfileikamótun stúlkna í ágúst.
Viktor Smári í Miðgarði í Garðabæ. Myndirnar sem fylgja eru teknar af pabba hans, Davíð Má Sigurðssyni – nema myndin af stelpunum þremur er fengin af heimasíðu Tindastóls. Þar má sjá Elísu Bríeti, Birgittu Rún og Kötlu Guðnýju sem tóku þátt í Hæfileikamótun stúlkna í ágúst.

Þessa dagana fer fram Hæfileikamótun N1 og KSÍ drengja í Miðgarði í Garðabæ en lokahnykkurinn fer fram á Laugardalsvelli í dag. Drengirnir eru allir fæddir 2008 og eiga því að vera að spila með 4. flokki. Einn leikmaður úr liði Tindastóls/Hvatar/Kormáks er í 60 manna úrtakinu en það er Króksarinn Viktor Smári Davíðsson. Feykir hafði samband við kappann og spurði hann aðeins út í Hæfileikamótunina og fótboltann.

Áður en lengra er haldið er rétt að nefna að Hæfileikamótun N1 og KSÍ fyrir stúlkur fór fram í lok ágúst en þar voru valdar 60 stelpur frá 25 félögum víðs vegar af landinu til þátttöku.

Elísa Bríet Björnsdóttir, Birgitta Rún Finnbogadóttir og Katla Guðný Magnúsdóttir voru valdar í þetta verkefni en þær spila með 4.flokks liði Tindastóls/Hvatar og Kormáks. Elísa og Birgitta koma frá Ungmennafélaginu Fram á Skagaströnd en Katla er af Króknum. Þær voru allar saman í 4. flokks liði Tindastóls/Hvatar/Kormáks sem komst í undanúrslit í Íslandsmótinu á dögunum en liðið missti af úrslitaleiknum eftir að hafa fallið úr leik eftir vítaspyrnukeppni í leik gegn Stjörnunni/Álftanesi. Frábær árangur hjá stelpunum.

Ætlar alla leið í fótboltanum

Hæfileikamótun N1 og KSÍ fyrir drengi fer fram dagana 14.-16. september. Viktor Smári svaraði nokkrum spurningum sem Feykir sendi honum í gærkvöldi en fyrst var hann spurður hvort það væri búið að vera gaman í boltanum í sumar. „Já, það er búið að vera mjög gaman. Ég spila með sameinuðum 4. flokki Tindastóls, Kormáks, Hvatar og Fram frá Skagaströnd en hef líka spilað nokkra leiki með þriðja og öðrum flokki þannig að ég spilaði með þremur flokkum í sumar.“

Hvernig hefur gengið? „Bara ágætlega. Við lentum í 4. sæti í riðlinum okkar, með jafn mörg stig og annað og þriðja sætið en við vorum bara mjög óheppnir. Við erum miklu betri en öll liðin þarna, sérstaklega seinni hluta sumarsins eftir að hafa spilað okkur saman.“

Hvernig er að taka þátt í Hæfileikamótun KSÍ – er þetta skemmtilegt ævintýri? „Þetta er mjög gaman. Okkur er skipt upp í fjóra hópa og hver hópur er með sinn þjálfara, aðalþjálfarinn situr bara og fylgist með okkur. Þarna eru svo líka markmannsþjálfari og sjúkraþjálfari. Það er mikil áskorun að spila með öllum bestu 2008 módelinu á landinu þar sem allir eru að leggja sig 100% fram, sama hvaða stöðu maður er látinn spila á vellinum. Síðan fáum við að spila á Laugardagsvellinum, sem verður geggjað gaman.“

Lærirðu eitthvað með þátttökunni / hvernig hefur gengið í leikjunum? „Þetta eru mjög erfiðir leikir, það eru allir mjög fljótir og tæknilega góðir í fótbolta. Það gerir mig bara betri. Okkur hefur gengið ágætlega en tapað tæplega. Það er einhvern veginn ekki verið að hugsa of mikið um lokatölurnar, heldur hvernig við spilum fótbolta.“

Er ekkert erfitt að vera eini strákurinn af Króknum í hópnum? „Jú, það er pínu erfitt en ég er fljótur að kynnast mörgum strákum þarna, þeim finnst mjög skrítið að þarna sé bara einhver gaur úr Tindastól og spurðu hvort ég ætlaði bara að vera þar.“

Þú varst í fótboltaskóla í Bolton í sumar. Segðu okkur frá því. „Það var geggjað. Ég var þarna í viku með sextán, 14-16 ára strákum, Við fórum á tvær æfingar á dag með frábærum þjálfurum frá Bolton Wanderers og spiluðum síðan leik við breska stráka sem stefna á atvinnumennsku í fótbolta. Hótelið var geggjað, Bolton Stadium Hotel er staðsett á Bolton vellinum. Maður sá bara fótboltavöllinn þegar maður leit út um gluggann. Eftir æfingarnar var ýmislegt að gera, við fórum til Manchester á enska fótbolta safnið, í risastóra verslunarmiðstöð, ýmsar skoðunarferðir, fengum einkaspjall við Jón Daða Böðvarsson landsliðsmann (leikmann Bolton) og í keilu með fararstjóranum kvöldið síðasta kvöldið. Okkur leiddist alls ekki.“

Stefnirðu hátt í fótboltanum? Já, alla leið.“

Stundarðu fleiri íþróttir en fótboltann eða er hann alveg númer eitt? „Ég er og verð bara í fótbolta.“

Fyrirmyndin á fótboltavellinum? „Örugglega Thiago Alcantara í Liverpool, hann er kóngurinn,“ segir Viktor Smári í lokin.

- - - - -

Hér er hægt að fylgjast með leikjunum á Laugardalsvelli >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir