Þægilegur sigur Stólanna gegn Breiðhyltingum

Taiwo flaug um Síkið og var að troða troð, troð var ekki troðið nema Taiwo træði troð... Sorrí ;). MYND: HJALTI ÁRNA
Taiwo flaug um Síkið og var að troða troð, troð var ekki troðið nema Taiwo træði troð... Sorrí ;). MYND: HJALTI ÁRNA

Fyrsti heimaleikur Tindastóls í Subway-deildinni fór fram í gærkvöldi og óhætt að fullyrða að Króksarar hafi beðið spenntir eftir körfunni því um 600 manns skelltu sér í Síkið og sáu sína menn landa ansi öruggum tveimur stigum gegn kanalausum ÍR-ingum. Eftir jafnar upphafsmínútur náðu Stólarnir frábærum 19-2 kafla seinni part fyrsta leikhluta og það bil náðu gestirnir aldrei að vinna almennilega á. Lokatölur eftir þægilegan fjórða leikhluta voru 85-70 fyrir Stólana.

Bæði lið komu vængbrotin til leiks en ÍR kom kanalaust til leiks eftir að hafa ákveðið að senda sinn kana heim á dögunum. Í lið Tindastóls vantaði tvo byrjunarliðsmenn; Drungilas tók út eins leiks bann eftir olnbogaskot í andlit Milka í fyrsta leik og þá hafði Arnar meiðst á æfingu í vikunni og því fjarri góðu gamni. Talið er að meiðslin séu ekki jafn alvarleg og óttast var í fyrstu.

Colin Pryor gerði fyrsta stig leiksins úr víti en liðin skiptust á um að hafa forystuna og staðan 12-11 þegar fimm mínútur voru liðnar. Þá kom þristur frá Keyshawn og síðan fimm stig frá Zoran og síðan fylgdu stig úr öllum áttum og ekki stóð steinn yfir steini í liði ÍR. Staðan að loknum fyrsta leikhluta 31-13 og ljóst að það var á brattann fyrir Breiðhyltinga. Helgi Rafn hóf annan leikhluta eins og hann endaði fyrsta, með fallegri íleggju, og munurinn tuttugu stig. ÍR-ingar hófu að klóra sig til baka inn í leikinn í framhaldinu. Þeir minnkuðu bilið fljótlega í tíu stig en Taiwo Badmus virtist alltaf eiga ás í erminni ef gestirnir færðust nær og ýmist skellti í þrist eða tróð með tilþrifum. Staðan í hálfleik 48-35.

Gestirnir komu muninum niður í átta stig snemma í síðari hálfleik en þá kviknaði á Sigga Þorsteins sem gerði fyrstu stig sín á tímabilinu og var ÍR-ingum erfiður undir körfunni. Munurinn yfirleitt í kringum tíu stigin á þessum kafla en Stólarnir kláruðu leikhlutann með 3ja stiga skoti frá Keyshawn og troðslu frá Taiwo. Jónas Steinarsson svaraði með þristi rétt áður en leikhlutinn kláraðist og staðan 68-56. Annar þristur Axels í leiknum, snemma í fjórða leikhluta, létti heimamönnum byrinn og munurinn varð tuttugu stig á ný eftir 3ja stiga skot Péturs þegar rúmar sex mínútur voru til leiksloka. Þá voru úrslitin í raun ráðin og bæði lið skelltu ungum og sprækum út á gólfið og var gaman að sjá strákana fá tækifæri til að stíga dansinn.

Stigahæstur í liði Tindastóls var Taiwo með 26 stig, Keyshawn gerði 22 stig en aðrir voru undir tíu stigunum. Í liði gestanna var Massarelli með 16 stig og Sigvaldi 12. Leikurinn var ágæt skemmtun þó svo að hann væri talsvert átakaminni en leikurinn gegn Keflavík í fyrstu umferð. Nú á mánudaginn heldur fjörið síðan áfram en þá verður spilað í VÍS bikarnum. Lið Tindastóls á heimaleik gegn Haukum úr Hafnarfirði og verður leikurinn sýndur í Ríkiskassanum. Áfram Tindastóll!

Tölfræði leiks af vef KKÍ >

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir