Stólastúlkur tóku stigin í níu marka trylli

María Dögg var heiðruð fyrir leik en hún náði nýlega þeim áfanga að spila sinn 100. leik fyrir Tindastól. Hún stóð fyrir sínu í dag eins og vanalega. MYND: ÓAB
María Dögg var heiðruð fyrir leik en hún náði nýlega þeim áfanga að spila sinn 100. leik fyrir Tindastól. Hún stóð fyrir sínu í dag eins og vanalega. MYND: ÓAB

Það var heldur betur markaveisla á Sauðárkróksvelli í dag því 19 mörk voru skoruð í þeim tveimur leikjum sem fram fóru. Strákarnir unnu öruggan 9-1 sigur en það var meiri spenna þegar Stólastúlkur tóku á móti spræku liði Víkings í mikilvægum leik liðanna í Lengjudeildinni. Reykjavíkurstúlkurnar þurftu sigur til að halda sér í toppbaráttunni og Stólastúlkur sömuleiðis. Eftir átta marka óhóf í fyrri hálfleik var heimaliðið með tveggja marka forystu í hálfleik en gestirnir náðu aðeins að klóra í bakkann í uppbótartíma í síðari hálfleik og Stólastúlkur fögnuðu innilega 5-4 sigri.

Lið Víkings hefur á að skipa mörgum sterkum og teknískum stelpum en þeim gekk illa að höndla Murr í dag en hún virðist vera að ná sér á strik á ný eftir meiðsli. Hún gerði fyrsta mark leiksins á níundu mínútu og það af harðfylgi; braust hreinlega í gegnum vörn gestanna og lagði boltann í markið. Hún var enn að gera gestunum lífið leitt á 22. mínútu þegar hún komst upp að endamörkum og sendi boltann á Hugrúnu sem klikkaði ekki í færinu. Aðeins mínútu síðar bætti Melissa Garcia við þriðja marki Tindastóls og stuðningsmenn í sæluvímu.

Það mátti heyra gestina peppa sig upp og nefna að þær þyrftu aðeins eitt mark til að koma sér í gang. Það kom á 27. mínútu eftir að vörn Stólanna missti einbeitinguna en markið gerði Bergdís Sveinsdóttir. Aldís María kom Tindastóli í 4-1 þegar hún lúrði á fjærstöng og kom aukaspyrnu Hönnuh Cade í markið. Mínútu síðar minnkuðu gestirnir aftur muninn þegar Víkingar voru grimmari í vítateig Tindastóls, boltinn barst á Hafdísi Báru Höskuldsdóttir sem náði góðu skoti sem Amber átti ekki séns í. Staðan orðin 4-2 og ekki var allt búið enn. Murr gerði murr á 44. mínútu og Amber heimtaði fókus í kjölfarið en varð að sækja boltann í þriðja sinn í mark sitt mínútu síðar og það hreinlega sauð á henni. Stólastúlkur reyndar mjög ósáttar við að markið hafi fengið að standa þar sem leikmaður Víkings var kolrangstæður, kom ekki við boltann en hafði næsta örugglega áhrif á leikinn. Staðan 5-3 í hálfleik.

Leikurinn var ekki jafn opinn í síðari hálfleik en lið Tindastóls fékk á sig fá færi en skapaði nokkrar lofandi stöður í sókninni. Murr átti skalla naumlega framhjá og síðan átti hún augljóslega að fá vítaspyrnu þegar markvörður Víkings tók hana niður. Ekkert var dæmt. Á fimmtu mínútu í uppbótartíma minnkaði Christabel Oduro muninn í eitt mark en Stólastúlkur héldu út tvær mínútur í viðbót eða þar til dómarinn flautaði af.

Baráttan um sæti í Bestu deildinni í algleymingi

Gríðarlega mikilvægur sigur Tindastóls sem eltir nú lið HK í baráttunni um sæti í Bestu deild en lið FH hefur dálitla forystu á HK og Tindastól. Leikurinn var hin besta skemmtun, var jafn og spennandi og sjá mátti fín tilþrif hjá báðum liðum. Reyndar afar ólíkt liði Tindastóls að fá á sig fjögur mörk og nú þarf að þétta raðirnar á ný fyrir lokaumferðirnar. Í dag vantaði Claudiu Valettu í lið Tindastóls en hún meiddist í leiknum gegn Haukum á dögunum. Þá skiptu tveir stúlkur úr liði Tindastóls áður en leikmannaglugginn lokaði; þær Lara Margrét og Anna Margrét sem báðar höfðu staðið sig með ágætum þrátt fyrir reynsluleysi í meistaraflokki. Rakel Sjöfn kom inn í lið Stólastúlkna í stað Claudiu í dag og stóð sig vel.

Í næstu umferð fara Stólastúlkur austur á firði og þurfa að sækja þrjú stig þangað en á sama tíma mætast lið FH og HK á Kaplakrikavelli. Sannarlega stórleikir báðir tveir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir