Skytturnar áfram í hlutverkum aðstoðarþjálfara

Svavar og Helgi með Dag formann á milli sín. MYND AF SÍÐU TINDASTÓLS
Svavar og Helgi með Dag formann á milli sín. MYND AF SÍÐU TINDASTÓLS

Það er alltaf fjör hjá körfuknattleiksdeild Tindastóls og áhugamenn um undirskriftir gleðjast jafnan þegar tilkynningar berast af þeim bæ. Nú fyrir helgi dró Dagur Þór Baldvinsson, formaður deildarinnar, sparipennann úr brjóstvasanum og rétti þeim Svavari Atla Birgissyni og Helga Frey Margeirssyni sem skrifuðu umsvifalaust undir samning og verða því aðstoðarþjálfarar meistaraflokks karla hjá Tindastóli í vetur.

Þeir eru reyndar ekki ókunnugir í því starfi því Svavar aðstoðaði Baldur Þór allan síðasta vetur og Helgi kom inn í þjálfarateymið upp úr miðjum vetri. Nú verða skytturnar aðstoðarmenn hjá Króatanum Vladimir Anzulovic sem er væntanlega farinn að pakka ofan í töskur og væntanlegur á Krókinn fyrr en síðar.

Fanney áfram með Stólastúlkum

Dagur fann meiri not fyrir pennann góða í síðustu viku því Fanney María Stefánsdóttir framlengdi sinn samning við körfuknattleiksdeildina og spilar því áfram með liði meistaraflokks í vetur. Fanney, sem er aðeins 16 ára gömul, var með fjögur stig að meðaltali í 18 leikjum síðasta vetur og 2,6 fráköst en hún spilaði að meðaltali tæpar 15 mínútur í leik.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir