Meistaraefnin úr Keflavík stöðvuðu bikardrauma Stólastúlkna
Það verður ekki sagt að Stólastúlkur hafi haft heppnina með sér þegar dregið var í VÍS bikarnum nú í haust því ekki var nóg með að lið Tindastóls þyrfti að spila á útivelli heldur dróst liðið á móti liði Keflavíkur sem enn hefur ekki tapað leik í Subway-deild kvenna. Það er skemmst frá því að segja að heimastúlkur reyndust sterkari aðilinn í leiknum og unnu hann af öryggi. Lokatölur 88-52 og lið Tindastóls því úr leik í VÍS bikarnum.
Lið Keflavíkur fór betur af stað, komst í 5-0, en Stólastúlkur bitu aðeins frá sér í byrjun og staðan var 7-7 eftir þriggja mínútna leik. Næstu níu stig voru heimastúlkna og þær náðu forystu sem þær létu ekkert af hendi það sem eftir var leiks. Gestirnir voru samt sem áður inni í leiknum og áttu ágæta spretti. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 24-16 og um miðjan annan leikhluta 37-24. Stólastúlkur náðu að minnka muninn í tíu stig, 40-30, með körfu frá Evu Rún en staðan í hálfleik var 43-30.
Í þriðja leikhluta skiptu heimastúlkur um gír og brunuðu yfir gestina, unnu leikhlutann 29-5 og staðan að honum loknum 72-35. Fjórða leikhlutann náðu Stólastúlkur að sigra með einu stigi, 16-17, sem var kannski pínu sólargeisli í erfiðum leik.
Níu stúlkur voru á skýrslu hjá liði Tindastóls í dag og hópurinn hreint ansi þunnuskipaður. Hópar beggja liða voru nýttir til hins ýtrasta og allar fengu stúlkurnar góðan spilatíma sem er jákvætt. Stigahæst Stólastúlkna var Chloe Wanink með 23 stig og hún hirti líka sex fráköst. Emese Vida gerði tólf stig og tók 11 fráköst og Eva Rún gerði sjö stig. Gestirnir fráköstuðu bísna vel gegn sterkum andstæðingi í dag, náðu 38 stykkjum gegn 44 heimastúlkna. Þær töpuðu hins vegar 23 boltum en Keflavík ellefu.
Karlalið Tindastóls átti einnig að spila á Suðurnesjunum í dag en leik Njarðvíkur og Stólanna var frestað meðan beðið er niðurstöðu í stóra svindlmálinu – eða þannig.
Næstkomandi fimmtudag verður hið sjaldgæfa fyrirbrigði tvíhöfði í Síkinu. Þá taka stelpurnar á móti Stjörnunni kl. 17:15 en karlalið félaganna mætast síðan kl. 20:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.