Létt verk og löðurmannlegt í logninu á Króknum
Tindastóll hefur þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppni 4. deildar og nú er bara spurning hvort liðið sleppur við að fara í umspil. Allir leikir skipta því enn máli. Næst síðasti leikur liðsins í riðlakeppninni fór fram á Sauðárkróksvelli í dag þegar Skautafélag Reykjavíkur mætti til leiks. Stólarnir unnu fyrri leik liðanna 3-5 en gestirnir reyndust lítil fyrirstaða í dag þó þeir hafi minnt á sig framan af leik. Lokatölur voru 9-1.
Lið Tindastóls spilaði glimrandi fótbolta framan af leik, opnaði vörn gestanna hvað eftir annað og var komið í 2-0 eftir sex mínútur með mörkum frá Antoni Örth og Juan Falcon. Þó Stólarnir hefðu öll völd á vellinum eftir þetta minnkaði ákafinn aðeins og menn urðu helst til of værukærir. Um miðjan fyrri hálfleikinn reyndu Skautarar ítrekað að senda boltann inn fyrir hátt liggjandi vörn Tindastóls en framherjarnir oftar en ekki rangstæðir. Rangstæðugildran – eða arnarsjón aðstoðardómara – klikkaði á 27. mínútu þegar Markús Pálmason minnkaði muninn eftir að hafa sloppið aleinn í gegn. Stólarnir stigu upp á ný og Konni og Siggi létu boltann ganga hraðar. Á sjö mínútna kafla fyrir hlé gerðu Tindastólsmenn fjögur mörk eftir gott spil. Fyrst Jónas Aron á 38. mínútu, þá Juan Falcon mínútu síðar, Addi Ólafs skoraði á 42. mínútu og Anton Örth bætti við sjötta marki Tindastóls á 45. mínútu.
Það hægðist aðeins á markaskorinu í síðari hálfleik en Konni braut ísinn á 60. mínútu þegar hann lék á nokkra leikmenn SR, lagði svo boltann fyrir sig við vítateigsbogann og smellti honum í hægra hornið. Addi bætti svo við marki á 67. mínútu og Jónas Aron gerði níunda og síðasta mark Tindastóls á 87. mínútu.
Létt verk og löðurmannlegt í logninu á Króknum og Stólarnir sem fyrr í öðru sæti B-riðils, nú með 32 stig að loknum 13 leikjum. Í síðustu umferðinni kemur lið Stokkseyringa á Krókinn og verður leikuinn á laugardag kl. 14.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.