Keflvíkingar lögðu Stólana í hörkuleik í Blue-höllinni

Það var nánast eins og framhald á úrslitakeppninni frá í vor þegar lið Keflavíkur og Tindastóls mættust í Blue-höll Reykjanesbæjar í fyrstu umferð Subway-deildarinnar í gærkvöld. Leikurinn var æsispennandi og liðin banhungruð og því ekki þumlungur gefinn eftir. Gestirnir byrjuðu betur og leiddu í hálfleik en smá rót kom á leik Stólanna þegar Drungilas var sendur úr húsi eftir að hafa rekið olnboga í höfuð Milka. Keflvíkingar komust yfir í kjölfarið og náðu með herkjum að innbyrða sigur gegn baráttuglöðum Tindastólsmönnum. Lokatölur 82-80.

Nokkur veikindi og meiðsli höfðu sett strik í reikning Stólanna í undanfara leiksins. Þegar til kom var Zoran ekki á skýrslu en Siggi Þorsteins hitaði upp en var ekki leikfær. Badmus tók þátt í leiknum en var nánast á annarri löppinni þegar hans naut við. Það var því orðið nokkuð lágvaxið lið Stólanna þegar Drungilas skellti sér í ískalda sturtu í upphafi síðari hálfleiks.

Stólarnir náðu undirtökunum strax í byrjun; Pétur smurði niður þristi og Drungilas bætti við tveimur stigum áður en Hörður Axel lagaði stöðuna fyrir heimamenn. Holningin á liði Tindastóls var fín en Keflvíkingur gáfu lítið eftir og bæði lið sjóðheit fram yfir miðjan fyrsta leikhluta. Þá kom góður kafli Tindastóls þar sem Keyshawn og Arnar fóru á kostum. Þrír þristar frá Arnari glöddu augað og urðu Keflvíkingar að passa hann betur í framhaldinu. Staðan var 24-30 að loknum fyrsta leikhluta og áfram spiluðu Stólarnir prýðisbolta framan af öðrum leikhluta. Náðu mest 13 stiga forystu þar sem Drungilas sýndi sínar bestu hliðar og allt í lukkunnar velstandi. Keflvíkingar kláruðu fyrri hálfleik með sterkum spretti og Eric Ayala minnkaði muninn í fimm stig með flautuþristi. Staðan 46-51 í hálfleik.

Keflvíkingar héldu áfram að sækja að Stólunum í upphafi síðari hálfleiks og minnkuðu muninn í eitt stig. Keyshawn skellti í þrist en Hörður Axel svaraði að bragði. Eftir rétt rúmlega tveggja mínútna leik í þriðja leikhluta klýndi Drungilas olnboganum í andlitið á Milka og eftir skjáskot dómara var ákveðið að um brottrekstrarvillu væri að ræða – og lítið við því að segja. Í kjölfarið á þessum darraðadansi fengu heimamenn fimm vítaskot. Heimamenn gerðu sjö stig í röð á þessum kafla og náðu að snúa leiknum sér í vil. Þristur frá Arnari kveikti á Stólunum á ný og við tók spennandi lokakafli þar sem aldrei munaði meira en sex stigum. Heimamenn voru fimm stigum yfir, 69-64, fyrir fjórða leikhluta en tveir þristar frá Ragga sáu til þess að leikurinn var í járnum. Keyshawn minnkaði í tvö stig, 73-72, og Pétur setti þrist og kom gestunum yfir í kjölfarið. Hörður Axel svaraði með tveimur þristum og Pétur endurtók síðan leikinn og staðan 79-78 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Síðustu körfurnar komu af vítalínunni en Stólarnir áttu möguleika á að stela sigrinum í lokin, fengu boltann þegar átta sekúndur voru eftir en Badmus kom boltanum ekki á körfuna í lokaskotinu.

„Liðið spilaði hörkuleik í krefjandi aðstæðum“

Tap því niðurstaðan í fyrsta leik tímabilsins hjá Stólunum. Þessum tveimur liðum var fyrir tímabilið spáð efstu sætunum í vetur og ljóst að þau eru bæði vel mönnuð og sterk. Meiðsli í herbúðum Stólanna urðu til þess að heldri menn liðsins, Helgi Rafn og Axel, fengu að spretta úr spori. Byrjunarlið Tindastóls skilaði fínu framlagi en bekkurinn gerði aðeins fjögur stig í leiknum og Badmus náði sér engan veginn á flug í leiknum. Keyshawn var stigahæstur með 22 stig, Arnar gerði 16 stig en nýtingin kannski ekki alveg nógu góð. Drungilas var kominn með 13 stig þegar hann fékk reisupassann og þá hafði hann tekið sex fráköst – öll undir körfu Keflvíkinga! Pétur tók sömuleiðis sex fráköst og gerði 12 stig í leiknm. Kannski kom helst á óvart í gær að Ragnar Ágústs var í byrjunarliði Tindastóls en hann átti flottan leik; gerði 13 stig, tók fimm fráköst og endaði framlagshæstur Stólanna með 20 punkta. Það verður heldur ekki kvartað undan 83% skotnýtingu kappans.

Feykir spurði Helga Margeirs, annan aðstoðarþjálfara Stólanna, hvað þjálfurum liðsins hefði þótt um frammistöðuna. „Þjálfarateymið er mjög ánægt með leikinn í gær, liðið spilaði hörkuleik í krefjandi aðstæðum. Leikmennirnir eru búnir að leggja mikla vinnu á sig á undirbúningstímabilinu sem er farið að skila sér en það er enn mikið svigrúm til bætinga,“ sagði Helgi.

Næsti leikur er í Síkinu nk. fimmtudagskvöld þegar ÍR-ingar mæta til leiks en Breiðhyltingar gerðu sér lítið fyrir og skelltu Njarðvíkingum í fyrstu umferð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir