Jafntefli í hörkuleik í Kórnum
Það var stórleikur í Kórnum í Kópavogi í gærkvöldi þegar liðin í öðru og þriðja sæti Lengjudeildar kvenna mættust í hörkuleik og skiptu stigunum á milli sín. Eins og leikir Stólastúlkna að undanförnu var þessi ekki frábrugðinn að því leyti að leikur liðsins var kaflaskiptur – fyrri hálfleikur slakur en síðari hálfleikur mun betri. Jafnteflið þýðir að stað þriggja efstu liða er óbreitt en nú geta liðin í fjórða og fimmta sæti blandað sér enn frekar í toppbaráttuna nái þau hagstæðum úrslitum. Lokatölur í Kórnum voru 1-1.
Þrátt fyrir að vera slakari aðilinn í fyrri hálfleik fékk lið Tindastóls nokkur ágæt færi og fyrsta mark leiksins gerðu einmitt gestirnir á 9. mínútu. Þá átti Kristrún frábæra sendingu inn fyrir vörn HK á Murr sem komst upp að endamörkum og sendi góðan bolta á Hugrúnu sem gerði engin mistök fyrir opnu marki. Þriðja markið hjá Hugrúnu í sumar og öll hafa þau komið gegn sterkustu mótherjunum; FH, HK og Víkingi. Heimastúlkur pressuðu í kjölfarið að marki Stólastúlkna og áttu nokkra sénsa áður en jöfnunarmarkið leit dagsins ljós á 15. mínútu. Þá missti Amber boltann eftir skot og Isabella Eva Aradóttir potaði honum í markið. Amber lét mistökin ekki á sig fá og hélt liði Tindastóls inni í leiknum fram að hléi með góðum vörslum og inngripum.
Í hálfleik gerði Donni þrjár breytingar en þá skipti hann Melissu, Claudiu og Bergljótu inn fyrir Hrafnhildi, Aldísi Maríu og Sólveigu Birtu. Nú færðist meiri ógn í leik Stólastúlkna og liðið hélt boltanum betur og frammi var stöðug ógn af Murr sem komst næst því að koma boltanum í mark HK þegar hún skallaði hornspyrnu í stöngina. Gestirnir pressuðu töluvert undir lokin og fengu Stólastúlkur nokkrar álitlegar hornspyrnur en inn vildi boltinn ekki.
„Það er allt ennþá opið í þessu“
Feykir spurði Donna hvað honum hefði fundist um leikinn. „Fyrri hálfleikurinn var aftur slakur spillega séð eins og á móti Fylki. Hins vegar eins og þá, þá skorum við samt frábært mark. Seinni hálfleikurinn var svo aftur mjög góður en það vantaði aftur að reka endahnútinn. Heilt yfir ágætis frammistaða og nú er að halda áfram og bæta í þvî það er allt ennþá opið í þessu.“ Aðspurður um frammistöðu nýju stúlknanna, Melissu og Claudiu sem komu báðar inn á í hálfleik, þá var Donni ánægður og fannst þær koma vel inn í leikinn og standa sig vel.
Næst spila Stólastúlkur í Hafnarfirði 5. ágúst gegn liði Hauka sem er nú í neðsta sæti deildarinnar. Næsti heimaleikur er hinsvegar ekki fyrr en 13. ágúst þegar lið Víkings kemur í heimsókn – þá verður sumarið væntanlega komið á Krókinn...
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.