1604 holur farnar í golfmaraþoninu á Hlíðarendavelli

Séð yfir hluta af Hlíðarendavelli. MYND: Sigríður Svavarsdóttir formaður GSS
Séð yfir hluta af Hlíðarendavelli. MYND: Sigríður Svavarsdóttir formaður GSS

Það var líf og fjör á golfvellinum í gær þegar Golfmaraþon Barna- og unglingastarfs Golfklúbbs Skagafjarðar fór fram í frábæru veðri í gær. Markmið hópsins var að ná að fara 1000 holur á einum degi og var stór hluti af þeim krökkum sem hafa verið á æfingum í sumar þátttakendur en einnig máttu foreldrar, ömmur, afar, systkini, frændur, frænkur og auðvitað meðlimir Golfklúbbs Skagafjarðar leggja hönd á plóg og hjálpa krökkunum að ná settu marki.

Alls tóku 80 manns þátt og er gaman að segja frá því að yngsti þátttakandinn var ekki nema 6 ára og elsti 72. Sá sem fór færstu holurnar fór tvær á meðan sá sem fór flestar fór, ekki meira né minna en, 66 holur. Þá voru allir sem lögðu inn holur verðlaunaðir með heitri vöfflu m/sultu og rjóma og að auki fengu krakkarnir ís.

Markmiðið náðist á slaginu 18:00 þegar Tómas Bjarki Guðmundsson skilaði inn skorkortinu sínu við mikil fagnaðarlæti í skálanum. Það var því tekið á það ráð að reyna við holumetið sem var sett árið 2018 en það hljóðaði upp á 1541 holu. Um kl. 19:30 var ákveðið að stoppa leikana og var þá búið að fara 1604 holur frá kl. 9 um morguninn og var því nýtt met slegið sem verður erfitt að toppa þegar næsta maraþon verður haldið, sem er áætlað árið 2024.

Það hafa eflaust einhverjir orðið varir við þetta skemmtilega framtak hjá Golfklúbbi Skagafjarðar því í fréttunum hjá RÚV mátti sjá umfjöllun um maraþonið ásamt því að sjá nokkra unga og efnilega golfara í viðtali. Innslagið má sjá HÉR á 17 mínútu.

Barna- og unglingastarf GSS vill skila miklu þakklæti til allra þeirra einstaklinga, fyrirtækja og stofnana, sem lögðu áheit eða styrktu krakkana og mun sú upphæð sem safnaðist nýtast vel í að búa til enn fleiri skemmtilegar minningar með krökkunum sem stunda golf með Golfklúbbi Skagafjarðar.

Þá má geta þess að bakaðar voru a.m.k. 120 vöfflur í vallarhúsinu sem hurfu allar eins og dögg fyrir sólu.

- - - -
Myndirnar sem hér fylgja eru af síðu GSS og Sylvía Dögg Gunnarsdóttir tók þær (nema eina).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir