Frítt á leik Kormáks og Hvatar gegn föllnu liði KH
Fyrir réttu ári var mikið um dýrðir í Húnaþingi, þegar sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar tryggði sér í fyrsta sinn sæti í 3. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Römm blanda heimamanna og erlendra lykilmanna reyndist rétt í þriðju tilraun, en árin tvö á undan höfðu Húnvetningar farið í hina snúnu úrslitakeppni 4. deildar án þess að ná alla leið.
Í ár hefur gengið verið upp og ofan, en þó aðallega ofan seinni part sumars. Þriðja deildin er önnur ella en sú fjórða og úrslitin hafa látið bíða eftir sér í síðustu leikjum. Nú er svo komið að lokaumferðin fer fram næstkomandi laugardag og Kormákur Hvöt blæs til sóknar eftir magra tíð.
Bleikliðar taka þá á móti föllnu liði Knattspyrnufélags Hlíðarenda og ætla að kveðja leiktíðina með sigri á heimavelli. Frítt verður á leikinn og meistaraflokksráð býður upp á grillfæði á meðan við njótum vonandi bleiks markaregns.
Í þessum síðasta heimaleik ársins ætlum við að fara sömu leið og nokkur félög í deildinni hafa farið undanfarið og efna til söfnunar til styrktar aðstandendum harmleiksins á Blönduósi í ágúst. Hægt er að leggja frjáls framlög inn á reikning 0307-26-001261 með kennitölunni 650169-6629 - posi og baukur verða svo á staðnum.
Við hvetjum alla áhugasama um leikinn fagra að láta sjá sig á Blönduósi á laugardaginn klukkan 14:00 og styðja okkar menn til sigurs!
/Meistaraflokksráð Kormáks Hvatar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.