Allt Tindastólsfólk á Kópavogsvöll í kvöld

Það styttist óðfluga í fótboltatímabilinu. Karlalið Tindastóls hefur lokið leik í 4. deildinni þar sem ekki náðist sá árangur sem að var stefnt. Lið Kormáks/Hvatar spilar næstsíðasta leik sinn í 3. deildinni um helgina en spennan er mest í kringum kvennalið Tindastóls sem spilar við lið Augnabliks á Kópavogsvelli í kvöld. Ef stelpurnar ná að vinna leikinn þá hafa þær tryggt sér sæti í Bestu deild kvenna að ári. Stuðningsfólk Tindastóls er því hvatt til að fjölmenna á völlinn í kvöld og styðja Stólastúlkur en leikurinn hefst kl. 19:15.

Lið FH hefur þegar tryggt sér sæti í efstu deild, er með 40 stig að loknum 16 umferðum. FH mætir Fylki í Kaplakrika í kvöld en Árbæingar hafa ekki tapað leik í síðari umferð Lengjudeildarinnar en hafa gert jafntefli að listgrein. Lið FH kemur síðan í heimsókn á Krókinn í lokaumferðinni og mætir þar Stólastúlkum sem eru nú með 37 stig. Mögulega gæti sá leikur orðið úrslitaleikur um efsta sætið í deildinni.

Ef lið Tindastóls misstígur sig þá eiga bæði HK og Víkingur enn möguleika að nýta sér óvænt tækifæri. HK-stúlkurnar hans Guðna Þórs eru í þriðja sæti með 33 stig og lið Víkings er með 32 stig í fjórða sæti.

Hægt er að horfa á leikinn í streymi en það kostar 5 evrur sem gera rúmlega 700 krónur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir