Áfram Tindastóll, alltaf, alls staðar!
Yngriflokkastarf Kkd. Tindastóls fyrir tímabilið 2022/2023 er að hefjast og eru fyrstu æfingar þegar farnar að rúlla af stað. Í vetur eigum við von á um 200 iðkendum í öllum yngri flokkum Tindastóls, allt frá leikskólahópi (4-5ára) og upp í elsta aldurshóp. Haustið einkennist af spennu og eftirvæntingu hjá krökkunum að komast aftur á æfingar, hitta þjálfarana og liðsfélagana í íþróttahúsinu og komast aftur á reglulegar æfingar og að keppa í körfubolta eftir sumarleyfi.
Eitt af markmiðum mínum sem verkefnastjóri hjá Unglingaráði Körfuknattleiksdeildar Tindastóls er að bæta gæði og að einhverju leyti staðla árherslur yngriflokkastarfsins fyrir bæði kyn, upp alla starfandi yngri flokka til framtíðar.
Að vinna að því markmiði mun taka tíma en fyrstu skrefin hafa verið tekin og vona ég að þau lukkist vel fyrir félagið okkar.
Yngriflokkaþjálfunin verður vel mönnuð í vetur, góð blanda af íslenskum og erlendum þjálfurum, en þeir verða alls átta starfandi hjá félaginu sem hafa þjálfara-reynslu/menntun, metnað og eldmóð til að vinna sína vinnu sem skilar sér beint til iðkendanna. Með þennan mikla og viljuga mannauð innan deildarinnar viljum við auðvitað hámarka tíma iðkendanna með þjálfurunum, þó innan marka þjálffræðinnar, en takmarkandi þáttur er eins og síðastliðin ár yfirfull stundatafla íþróttahúss Sauðárkróks og getum við því aðeins vonað að verið sé að skoða alvarlega þann möguleika að bæta íþróttaaðstöðuna á Sauðárkróki öllu samfélaginu til heilla.
Það er öllum ljóst að það er mikilvægt að halda vel utan um yngri flokka félagsins því án þeirra gæti Kkd. Tindastóls ekki það sem hún er í dag, og vera þetta stóra sameiningartákn samfélagsins og eitt af því sem við Skagfirðingar getum verið svo stolt af. Körfuboltaíþróttin hefur fyrir löngu sannað sig sem eitt af einkennum Skagafjarðar, með sinni miklu stemningu sem sprakk svo eftirminnilega út síðastliðið vor með mögnuðum lokaspretti í úrvalsdeildinni og enn betri úrslitakeppni, stemning sem við viljum öll upplifa reglulega aftur.
Ef jákvæð fjölmiðlaumfjöllun úr Skagafirði sem stóru fjölmiðlarnir birta yfir árið væri tekin saman grunar mig að körfuboltalið Tindastóls séu þar ofarlega á blaði og því verðmætt að halda því á lofti í samfélagi sem vill laða til sín ungt fólk til búsetu. En ekkert við starfsemi Kkd. Tindastóls er sjálfgefið, það kostar óteljandi vinnustundir sjálfboðaliða, öfluga styrktaraðila og stuðningsfólk sem er stolt af félaginu sínu og hvetur það áfram til góðra verka.
Áfram Tindastóll, alltaf, alls staðar!
/Helgi Freyr Margeirsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.