Uppskrift frá Hörpu og Tryggva
Gott um páskana
Að þessu sinni eru það Húnverski Húsvíkingurinn Harpa Hermannsdóttir og eiginmaður hennar Tryggvi Björnsson, tamningarmaður, sem deila uppskriftum sínum með lesendum Feykis. Þau Harpa og Tryggvi skora á þau Gunnar Þorgeirsson og Grétu Karlsdóttir Efri-Fitjum Vestur-Húnavatnssýslu að koma með uppskriftir að hálfum mánuði liðnum.
Forréttur
Humar í skel með ostabráð
Fyrir 6
- 1,2 kg stór humar
- 150 gr hvítlauks smurostur
- 200 gr smjör
- 4 stk hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
- ½ búnt fínt söxuð steinselja
- Safi úr 1 sítrónu
- Salt og pipar
Meðlæti:
- 3 stk sítrónur
- 8-10 stk fransktbrauð eða snittubrauð
- Hvítlaukssmjör
Kljúfið humarinn hálffrosinn eftir endilöngu og fjarlægið svörtu röndina(görnina), setjið í ofnskúffu og geymið (helst í frysti) á meðan osta-bráðin er löguð.
Bræðið sama ost og smjör og bætið hvítlauk, steinselju, kryddi og sítrónusafa saman við. Hrærið vel saman. Þekið humarinn með ostabráðinni og setjið undir grill í ofni í 4-5 mín eða þar til humarkjötið losnar aðeins frá skelinni. Berið fram strax ásamt smjörinu úr skúfunni.
Aðalréttur
Fyllt læri
- 1 úrbeinað lambalæri
- 100 gr fetaostur skorin niður í smærri bita
- 10-12 sólþurrkaðir tómatar skornir niður
- 3 msk furuhnetur
- 3 msk rautt pesto
- 2-3 hvítlauksgeirar saxaðir
- Basilika, að vild (fersk eða krydd)
- 1 tsk rósmarin (ferskt eða krydd)
- nýmalaður pipar
- salt
Öllu blandað saman.(ath má auka magn af fyllingu að vild)
Fyllingin sett inní lærið og lokað, gott að binda lærið saman eða stinga prjóni í til að loka því. Að lokum á að krydda lærið vel með salti og pipar.
Elda lærið í ofni við ca 140˚c í 1½ tíma síðan er hitinn hækkaður í 200˚c og lærið eldað í 15-20 mín til viðbótar
Eftirréttur
Mars mousse
- 4 mars súkkulaði
- 1/2 líter rjómi, létt þeyttur.
- 2 eggjahvítur
- 2 msk mjólk
- Þeyttur rjómi, mars í bitum eða hvað sem þú vilt skreyta með.
Skerið marsstykkin í bita og setjið þau í pott ásamt 2 msk af mjólk. Bræðið súkkulaðið við vægan hita þar til úr verður silkimjúk súkkulaðiblanda. Takið pottinn þá af hellunni og látið standa í 10-15 mín meðan mesti hitinn rýkur úr blöndunni. Hellið henni þá í skál. Þeytið rjómann og blandið honum svo varlega saman við súkkulaðiblönduna. Stífþeytið þá eggjahvíturnar og blandið þeim varlega saman við súkkulaðirjómann. Setjið í fallega skál og skellið inn í ísskáp eða frysti þar til blandan er orðin stíf. Skreytið þá með þeyttum rjóma, marsbitum eða því sem þú vilt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.