Ungmennaflokkur karla með tvo sigra í Síkinu um helgina
Í Síkinu um helgina átti Ungmennaflokkur karla tvo leiki á móti Grindavík og var fyrri leikurinn spilaður á laugardaginn kl. 16:00 og seinni leikurinn á sunnudeginum kl. 12:00. Þarna voru tvö efstu lið Ungmennaflokks að mætast og var því von á mikilli baráttu.
Laugardagsleikurinn byrjaði frekar jafn og þegar fimm mínútur voru búnar af leiknum var staðan 15-12 fyrir Stólunum en þá gáfu okkar menn í. Grindvíkingar réðu ekkert við Stólana og staðan í lok fyrsta leikhluta 32-19. Grindvíkingar byrjuðu hins vegar annan leikhluta betur og náðu þeir að saxa á forskotið og eftir sex mínútna leik var aðeins fjögurra stiga munur, staðan 37-33 fyrir Tindastól. Stólarnir áttu svo yfirhöndina það sem eftir var af öðrum leikhluta og tölur í hálfleik 56-43 fyrir Tindastól. Þriðji leikhluti var mjög jafn og liðin skiptust á að skora, staðan 78-65. Stólarnir voru svo sterkari í byrjun fjórða leikhluta og ná stöðunni 92-77 þegar fjórar mínútur voru búnar en þá sóttu Grindvíkingar hart á okkar menn og náðu að klóra í bakkann. Stólarnir náðu samt sem áður að klára leikinn með þriggja stiga mun 97-94.
Sunnudagsleikurinn byrjaði ekki jafn sannfærandi og deginum áður hjá okkar mönnum og voru Grindvíkingar með völdin og staðan 9-16 fyrir Grindavík eftir fyrsta leikhluta. Sama var uppi á teningnum í fyrri hluta annars leikhluta en okkar menn náðu að halda haus og gott betur en það því þegar flautað var til hálfleiks þá er staðan orðin 44-39 fyrir Stólunum. Grindvíkingar komu hins vegar sterkari inn eftir leikhlé og ná að klára þriðja leikhluta með eins stigs mun og staðan því 58-59 fyrir Grindavík. Stólarnir voru greinilega ekki tilbúnir að gefa frá sér stigin og komu betur hausaðir inn í fjórða leikhluta heldur en Grindvíkingar og leikurinn endaði 83-78 fyrir Tindastól. Okkar menn sitja því einir á toppnum með sjö sigra og ekkert tap.
Glæsilegur árangur hjá strákunum og vonandi ná þeir að halda þessari sigurgöngu. Áfram Tindastóll!
Sæþór Pétur Hjaltason/Sigríður Garðasdóttir. Ljósm. Sæþór Pétur Hjaltason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.