Það birti til á Ströndum | Björn Björnsson segir frá ferðalagi Félags eldri borgara í Skagafirði á Strandir

Ánægðir ferðalangar eftir góðan dag.  MYNDIR AÐSENDAR
Ánægðir ferðalangar eftir góðan dag. MYNDIR AÐSENDAR

Miðvikudaginn 19. júní síðastliðinn bjóst vaskur hópur úr Félagi eldri borgara í Skagafirði til ferðar og var för heitið þennan dag á Strandir vestur. Ekki lék veður við ferðalanga, þoka niður undir byggð og sudda rigning með lítilsháttar uppstyttum á milli. Þó var furðu létt yfir hópnum og sýndist sem flestir hefðu jafnvel búist við hinu versta hvað veðurfarið áhrærði, með góðan skjólfatnað og bjuggust allir til að mæta því sem að höndum mundi bera.

Á tiltekinni stund birtist rúta frá Suðurleiðum, undir stjórn Gísla Rúnars Jónssonar, sem átti eftir, enn einu sinni, að sanna snilli sína sem stjórnandi slíkra „smábíla“ sem hér var um að ræða. Hópuðust farþegar í rútuna og fundu sér þénlegan verustað í farartækinu, en síðan var brunað af stað og létti lítið til í umhverfinu og jafnvel buldu af og til regnhryðjur á farkostinum, en um það létu menn sér fátt finnast og leið vel.

Segir ekki af ferð hópsins og lítið létti til en að lokum var komið í Staðarskála, þar sem ýmsir léttu á sér en aðrir fengu sér kaffibolla sem þeir þóttust ekki hafa fengið sér áður en lagt var af stað – líklega af ferðatilhlökkun. Allmargir þóttust muna frá því kvöldið áður að líklega yrði þurrviðri á Ströndum og létta mundi til síðdegis. Þarna bættust í hópinn þau ágætishjón Ragnheiður Guttormsdóttir og Sigurður Frostason en þau höfðu vegna misskilnings misst af brottför frá Króki en létu sig ekki muna um að renna í Staðarskála til að slást í förina.

Að liðnu stoppi var haldið áfram og nú tekin stefna til Hólmavíkur. En sem ekið var norður Strandir tók Bragi Skúlason frá Ljótunnarstöðum míkrófóninn í sína hönd og nú fór heldur að létta til – innan og utan farkostsins. Úrkoman hætti að mestu einhversstaðar nálægt Broddanesi og birti upp þannig að úrkomulaust varð og jafnvel fjallasýn, en þó enn betra að njóta nú fróðleiks og skemmtilegra sagna. Bragi sem er gjörkunnugur á þessum slóðum, fræddi nú ferðalanga um byggðir og bæi og sagði frá því mannlífi sem á Ströndum var fyrrum þá hann var að slíta þar barnsskóm og unglingsárum. Þótti engum leiðin frá Staðarskála út Strandir löng þegar meðtekin var skemmtileg og fræðandi frásögn Braga.

Næst var stungið við stafni í félagsheimilinu Sævangi, þar sem Eiríkur Valdimarsson frá Vallanesi tók á móti gestum og sagði frá sýningu þeirri sem á Sauðfjársetrinu er en hana er stórskemmtileg að skoða. Þar var líka uppsett flott málverkasýning, í sumu tengd efni setursins, eftir listakonuna Hófí er var mörgum gestunum kunn sem fyrrum íbúi á Krók og nemandi í Fjölbrautaskólanum. Í Sauðfjársetrinu var boðið upp á ljúffengar súpur og heimabakað brauð og nutu gestir þess. Að afloknu skemmtilegu og nærandi stoppi var för haldið áfram til Hólmavíkur. Og enn létti til.

Bráðum sjáum Hólmavík

Á Hólmavík kom í bílinn leiðsögukona úr liði heimamanna, Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur, er tók nú til við fræðslu um sitt umdæmi. Var þar margt skemmtilegt og fróðlegt sem fram kom í máli hennar, en hún er mikill náttúruunnandi og ræktunarkona, hvort sem er skógur og eða annar jarðargróður. Þá sagðist hún aldrei sleppa því í kynningu á sjálfri sér að nefna að eina opinbera embætti sitt væri að vera formaður sóknarnefndar á Hólmavík eða Drangsnesi. Líka sagði hún frá því er þau hjónin hefðu ætlað sér að koma upp nokkrum bústofni, en þau búa í Hveravík litlu utan þorpsins á Hólmavík.

Varð henni tíðrætt um það er hún fékk sér egg til útungunar og ætlaði að koma sér upp góðum stofni varphæna en um það bil þrír fjórðu unganna, sem úr eggjunum komu reyndust hanar, er varð henni til verulegra vonbrigða. Ekki bætti úr skák að hanarnir, er þeir stálpuðust, voru bara verulega vondir við litlu hænurnar hennar, eirðu engu svo þeim hjónum þótti stóran vanda steðja að bústofninum. Lýsti hún því allnákvæmlega hvernig hún hefði ákveðið að losna úr þessum vanda og fór um það mörgum orðum, og lýsti því rækilega, að af verki loknu hefði hún verið verulega ánægð og ekki séð eftir þeim hluta bústofnsins sem fargað hafði verið.

Þótti ýmsum, sérstaklega aftar í rútunni, þessar lýsingar nokkuð kraumfengnar og minntu jafnvel á ýmislegt í mannlegri hegðun sem ekki á upp á pallborð nútímans. Urðu þar til nokkrar vísur sem Jón Gissurarson í Víðimýrarseli kynnti ferðalöngum nokkru síðar, en þó áður en leiðsögumaðurinn yfirgaf hópinn.

Sagði Jón að þó örlítið úrkomusamt hefði verið norður með Hrútafirði hefði verið svo bjart yfir með skemmtilegum og líflegum frásögnum Braga að rétt hefði verið sem glaðasólskin hefði verið um allan fjörð, og hefði sér þá dottið í hug:

   Þegar úti þoka grá
   þreytir fljóð og hlyni,
   bætir hana birtan frá
   Braga Skúlasyni.

Og svo:

   Ekkert mun í álinn syrta
   ánægjan er fáu lík.
   Núna er að byrja að birta,
   bráðum sjáum Hólmavík.

Hins vegar sagði Jón að ferðafélögum aftar í bílnum hefði þótt hastarlega gengið fram gegn fiðruðum kynbræðrum á búi leiðsögumanns og hefði þá Björn Björnsson skotið að sér:

   Sit ég hér með engin orð,
   eitthvað sem þarfnast hefndar.
   Framdi á hönunum fjöldamorð,
   formaður sóknarnefndar.

Jón vildi aftur á móti draga úr og taldi ekki ástæðu til hefndaraðgerða:

   Okkar mundi aukast þrá
   og enginn leita hefndar,
   ef við hana fengjum frá,
   formanni sóknarnefndar.

Um Arnkötludal og yfir Þröskulda

Næst lá leið heim að Svanshóli, ættaróðali þeirra Sigurbjargar og Svanborgar Guðjónsdætra, en á Svanshóli er rekin þjónusta við ferðafólk svo og er þar ræktað grænmeti, blóm og ýmsir, jafnvel suðrænir, ávextir. Þótti gestum gaman að koma í gróðurhúsin og skoða það sem fyrir augu bar undir leiðsög Viktoríu Ránar Ólafsdóttur. Á leið frá Svanshóli sagði Jón Sigurðsson frá sinni fyrstu heimsókn þangað og minntist hann þess að sér hefði þá sýnst að harðbýlt mundi á Ströndunum og verulega þurft að hafa fyrir lífinu þar en nú mundu hafa orðið á veruleg umskipti til batnaðar, með breyttum búskaparháttum.

Frá Svanshóli var ekið aftur til Hólmavíkur og þar numið staðar og komið í Galdur brugghús, en þar ráða ríkjum og eru aðaleigendur hjónin Anna Björg Þórarinsdóttir og Finnur Ólafsson, bændur að Svanshóli. Var gerð verslun þar og sögðu þeir sem reyndu veigarnar góðar og standa vel undir væntingum. Og Jón í Seli yrkir enn:

   Þegar bjórinn þömbum hratt,
   þá við ljóðin vöndum,
   býsna glöð svo getum kvatt,
   galdramenn á Ströndum.

Var nú Kristín leiðsögumaður og þjóðfræðingur kvödd og þökkuð góð leiðsögn, með góðum óskum um blómlega búskaparhætti og grósku í hennar störfum öllum. Lagt var nú í næstsíðasta áfanga ferðar en það var akstur um Arnkötludal og yfir Þröskulda og áleiðis til Búðardals, þar sem beið glæsilegur kvöldverður. Yfirgáfu menn þann stað saddir og sælir og bjuggust til brottfarar heimleiðis.

Ekki segir margt af leiðinni heim nema að þegar í Staðarskála var komið, þar sem þau Ragnheiður og Sigurður vitjuðu farkosts síns, var þar sami sveljandinn með úrkomu nákvæmlega eins og verið hafði um morguninn og töldu einhverjir að lengur hefði vel mátt una á Ströndum.

En rennt var í hlað á N1 á Sauðárkróki rétt rúmlega hálf ellefu um kvöldið, eftir góðan og skemmtilegan dag.

- - - - - -
Björn Björnsson sá um ritun en myndir koma úr fórum þátttakenda í ferðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir