Stórleikur í Síkinu í dag þegar Valsarar mæta á Krókinn
Lið ársins, tveir af þjálfurum ársins og íþróttamaður ársins í Skagafirði verða í eldlínunni í dag þegar topplið séra Friðriks Friðrikssonar af Hlíðarenda, Valur, mætir á Krókinn. Valur hefur verið í bullandi sókn í vetur og situr í öðru sæti Subway-deildar, með jafnmörg stig og Keflavík, 16 stig en lakara stigahlutfall en Stólar, sem hafa átt í vandræðum vegna meiðsla og annarra kvilla leikmanna, sitja í 6. sæti með tólf stig.
Búast má við mikilli stemningu í leiknum ekki síður en fyrir leik þar sem Sæþór, Eysteinn og Jóhann galdra fram gleðistemningu á Sauðá fyrir leik. Íþróttahúsið opnar svo klukkutíma fyrir leik eða 17:15. Milli þriðja og fjórða leikhluta er boðið upp á Subway miðjuskot og eftir leik verður pizzuhlaðborð á Kaffi Krók.
Í hálfleik verður minningu Lárusar Dags Pálssonar heiðruð þegar treyja honum merkt verður hengd upp. Lárus Dagur, lék í ellefu ár með meistaraflokkum Tindastóls og Vals og var fyrirliði Stóla og driffjöður inni á vellinum. Lárus Dagur lést 19. október 2019. Blessuð sé minning hans.
„Þetta verður spennandi leikur, liðin sem mættust í úrslitaseríu í vor. Bæði liðin tel ég vera mjög sterk og bara þannig séð haldið uppteknum hætti, við reyndar búnir að kasta frá okkur aðeins fleiri leikjum. Þeir eru búnir að vera ansi flottir þannig að ég er spenntur fyrir þessum leik og þarna mæta tvö góð lið,“ segir Pétur Rúnar Birgisson, nýkrýndur íþróttamaður Skagafjarðar. Hann er bjartsýnn á sigur enda aldrei farið í leik með öðru hugarfari en að vinna.
„Við förum í fáa leiki með það hugarfar að við getum ekki unnið þannig að ég tel að við séum með ansi sterkt lið á pappírnum og höfum sýnt það inni á vellinum líka ansi oft. Ég held að þetta verði hörku leikur og við vinnum!“ segir Pétur sem vill hvetja sem flesta að mæata og láta heyra í sér á pöllunum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.