Skellur í háspennuleik fyrir austan
Ekki er byrjun Tindastóls í Subwaydeildinni þetta hausið alveg eins og stuðningsmenn höfðu gert sér vonir um. Þrjú töp í fjórum leikjum en það má svo sem segja að lukkan hafi ekki verið í liði með Stólunum. Í gær héldu strákarnir austur á Egilsstaði, Arnar enn ekki með en Pétur ónotaður bekkjarsetumaður. Ragnar var borinn af velli í fyrri hálfleik og Keyshawn kláraði leikinn með tvö stig eftir að hafa sett niður eitt af 17 skotum sínum í leiknum! Leikurinn var engu að síður jafn og spennandi en það voru heimamenn í Hetti sem reyndust sterkari á lokametrunum. Úrslitin 73-69.
Það væri synd að segja að liðin hafi mætt til leiks á eldi. Sérstaklega voru gestirnir rólegir í tíðinni en staðan var 6-1 fyrir heimamenn þegar fimm mínútur voru liðnar. Stuttu síðar var staðan 10-5 en þrjú stig frá Taiwo og þristur frá Axel komu Stólunum yfir, 10-11. Flautuþristur frá dýralækninum sá til þess að Stólarnir leiddu, 15-17, að loknum fyrsta leikhluta. Liðin skiptust á um að hafa forystuna framan af öðrum leikhluta og aldrei munaði meiru en einu stigi. Þegar rúmar fjórar mínútur voru til leikhlés meiddist Ragnar og varð að bera kappann út af á börum. Staðan þá 27-26 en Stólarnir svöruðu með körfum frá Zoran og Keyshawn en áfram var allt hnífjafnt. Timothy Guers setti niður stökkskot fyrir heimamenn í þann mund sem leiktíminn rann út í fyrri hálfleik. Staðan 35-34.
Áfram hélt spennan í síðari hálfleik og eftir troðslu frá Taiwo náðu Stólarnir fjögurra stiga forystu, 37-41. Höttur svaraði en gestirnir voru jafnan skrefinu framar í þriðja leikhluta. Drungilas smellti í þrist undir lok leikhlutans og staðan að honum loknum 49-52. Hann hóf fjórða leikhlutann með íleggju og Stólarnir með fimm stiga forystu sem var mesta forysta þeirra í leiknum. Heimamenn komu með gott svar og Gísli Hallsson kom þeim yfir, 58-56, með þristi og Juan Navarro bætti við tvisti. Þá setti Reynir niður þrist en Höttur svaraði, 62-59, Drungilas jafnaði leikinn með þristi og fimm og hálf mínúta eftir. Í stöðunni 64-62 fékk Drungilas dæmda á sig óíþróttamannslega villu og í kjölfarið gerðu heimamenn fimm stig og náðu sjö stiga forystu. Siggi kom inn á og Stólarnir náðu að spila betri vörn, Siggi gerði tvær körfur og Taiwo jafnaði metin með þristi, 69-69, þegar rétt rúm mínúta var eftir. Guers kom Hetti aftur yfir og skot Keyshawn klikkaði og hann klikkaði aftur eftir að Trotter hafði komið heimamönnum fjórum stigum yfir með vítaskotum. Og þannig fór um sjóferð þá.
Liðin hittu jafn mörgum skotum utan af velli í leiknum en heimamenn fengu 20/26 víti á meðan Stólarnir fengu 12/17. Stólarnir settu niður sjö þrista en heimamenn aðeins þrjá. Lið Hattar tók 41 frákast en Stólarnir 36. Án Péturs og Arnars þurfti liðið á góðum leik frá Keyshawn að halda en kappinn hitti ekki naglann á höfuðið í gærkvöldi og endaði með -3 í framlag. Hann var þó frákastahæstur í liðinu með átta stykki og skilaði fjórum stoðsendingum. Eitt af 17 í skotum er hinsvegar tölfræði sem hann vill sennilega gleyma sem fyrst.
Atkvæðamestur Stólanna í gær var Taiwo með 15 stig og sex fráköst, Siggi Þorsteins og Drungilas gerðu báðir 13 stig og Axel setti niður þrjá þrista í sex tilraunum. Zoran var með átta stig en klikkaði á öllum fimm 3ja stiga skotum sínum líkt og Keyshawn sem tók reyndar níu 3ja stiga skot. Reyndar alltaf gott að sjá að menn hafi trú á skotinu sínu.
Samkvæmt heimildum Feykis eru sex leikmenn Tindastóls að stríða við meiðsli sem er ansi hátt hlutfall í fjórtán manna hópi. Arnar og Pétur mjakast að endurkomu en enn er óvíst hvenær þeir fá grænt ljós. Menn óttuðust slæm meiðsli hjá Ragga í gær, eru þó bjartsýnni í dag, en mál ættu að skýrast á morgun. Þá eru tvíburarnir Orri og Veigar báðir meiddir og sömuleiðis Eyþór Lár.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.