Páll Ragnarsson látinn
Páll Ragnarsson, tannlæknir á Sauðárkróki og formaður Ungmennafélagsins Tindastóls til fjölda ára, lést á Landspítalanum 29. janúar sl. eftir skammvinn veikindi, 74 ára að aldri.
Páll fæddist 20. maí 1946 á Sauðárkróki, sonur Ragnars Pálssonar, útibússtjóra í Búnaðarbankanum, d. 1987, og Önnu Pálu Guðmundsdóttur húsmóður, d. 2018. Páll ólst upp á Sauðárkróki, varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1966 og lauk prófi í tannlækningum frá Háskóla Íslands 1972.
Páll æfði ýmsar íþróttir með Tindastóli á yngri árum, einkum knattspyrnu, og lék síðan með meistaraflokki Vals árin 1966 til 1974. Hann flutti heim á Krók að loknu tannlæknanámi og spilaði í nokkur ár með liði Tindastóls. Hann varð formaður félagsins 1975 og gegndi því embætti allt til ársins 2006. Palli barðist fyrir uppgangi félagsins og aðstöðu þess í mörgum íþróttum, óþrjótandi allt fram á síðasta dag.
Hann fékk gullmerki ÍSÍ árið 1982, á 75 ára afmæli Tindastóls, og gullmerki UMFÍ 2007, fyrir störf sín í þágu Tindastóls. Sama ár varð hann heiðursfélagi félagsins. Þá fékk hann silfur- og gullmerki KSÍ. Páll starfrækti tannlæknastofu sína á Sauðárkróki frá 1974 og allt til dauðadags. Páll var virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins á Sauðárkróki og átti m.a. sæti á lista í bæjarstjórnarkosningum og í ýmsum nefndum fyrir flokkinn.
Eftirlifandi eiginkona Páls er Margrét Steingrímsdóttir hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra eru Ragnar, f. 1972, Helga Margrét, f. 1975, og Anna Rósa, f. 1977. Barnabörnin eru sjö talsins.
- - - - -
Heimild: Mbl.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.