Markviss landaði öllum titlum sem í boði voru
Íslandsmót í Norrænu Trappi var loksins haldið á athafnasvæði Skotfélagsins Markviss á Blönduósi um nýliðna helgina en mótinu hafði verið frestað í tvígang. Markviss félagar voru vel fókuseraðir og lönduðu öllum titlum sem í boði voru.
Á Facebooksíðu Markviss segir að mótið hafi gengið vel fyrir sig þrátt fyrir að gustaði hressilega um keppendur á köflum en vindmælar slógu í 20m/sek þegar verst lét.
Keppendur komu frá þremur félögum en auk heimamanna í Markviss mættu fulltrúar Skotfélags Ólafsfjarðar og Skotdeildar Keflavíkur til leiks.
„Þrátt fyrir vind og furðuflug á köflum náðist afbragðs árangur á mótinu. Fimm keppendur náðu að bæta sinn besta árangur, karlalið Markviss náði einnig bætingu á samanlögðu skori. Unglingalið Markviss bætti eigið Íslandsmet og einnig var sett Íslandsmet í Kvennaflokki,“ segir í færslu félagsins en Markviss landaði öllum titlum sem í boði voru að þessu sinni.
Íslandsmeistari karla: Guðmann Jónasson Markviss
Íslandsmeistari Unglinga: Elyass Kristinn Bouanba Markviss
Íslandsmeistari Kvenna : Snjólaug María Jónsdóttir Markviss (Íslandsmet í kvennaflokki)
Íslandsmeistarar í liðakeppni karla: Markviss (Guðmann-Stefán- Jón Axel.)
Íslandmeistarar í liðakeppni unglinga: Markviss á nýju íslandsmeti (Elyass-Sigurður-Haraldur Holti)
Myndir frá mótinu ásamt úrslitum má finna á FB síðu Skotfélagsins Markviss.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.