Laxveiðin víðast hvar betri en í fyrra í Húnavatnssýslum

Laxveiði er að margir telja list. MYND: SÖP
Laxveiði er að margir telja list. MYND: SÖP

Húnahornið er sem fyrr með allt á hreinu þegar kemur að veiði í húnvetnskum laxveiðiám. Veiðisumarið fór rólega af stað en hefur heldur betur tekið kipp því veiði er mun betri en hún var á svipuðum tíma í fyrra og sérstaklega gáfu síðustu vikutölur fyrirheit um væna sveiflu. Það er einvörðungu Blanda sem hefur gefið færri laxa en síðasta sumar en síðasta vika lofar góðu.

Sendum boltann á Húna: „Laxveiði í Miðfjarðará er komin yfir þúsund laxa en samkvæmt veiðitölum á vef Landssambands veiðifélaga höfðu í gærkvöldi veiðst 1.033 laxar í ánni og vikuveiðin nam 312 löxum. Um svipað leyti í fyrra höfðu veiðst 556 laxar í ánni svo breytingin er mikil milli ára. Laxá á Ásum er komin í 520 laxa og með vikuveiði upp á 117 laxa. Í fyrra stóð áin í um 330 löxum og má telja líklegt að hún nái þúsund laxa múrnum í sumar.

Víðidalsá er komin í 361 lax og með vikuveiði 98 laxa en í fyrra var búið að veiða 312 laxa í ánni. Vatnsdalsá stendur í 316 löxum og 78 laxa vikuveiði. Í fyrra höfðu veiðst 180 laxar í ánni. Veiðst hafa 198 laxar í Blöndu og vikuveðin þar 71 lax. Um svipað leyti í fyrra höfðu veiðst tæplega 300 laxar í ánni. Hrútafjarðará er komin í 154 laxa sem er mun meiri veiði en á sama tíma í fyrra þegar um 50 laxar höfðu veiðst í ánni. Veiði síðastliðna viku var 39 laxar. Svartá er komin í 41 lax sem er svipað og í fyrra.

Miðfjarðará er komin í 3. sæti yfir aflahæstu laxveiðiár landsins. Í 1. sæti er Þverá/Kjarrá með 1.327 laxa og í 2. sæti er Ytri-Rangá með 1.191 lax.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir