Kosningahugleiðingar

Þegar maður knýr dyra og óskar inngöngu er það gamall og góður siður að kynna sig.

Framsóknarmenn í Norðvesturkjördæmi blása til kjördæmisþings þann 8. október nk. á Bifröst þar sem kjósa skal listann sem verður í framboði til alþingiskosninga nú í haust. Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til kjörs í 2. sæti á listann. Halla Signý Kristjánsdóttir heiti ég og er búsett í Bolungarvík.

Ég er viðskiptafræðingur að mennt auk þess sem ég er með diploma í opinberri stjórnsýslu. Hef starfað við fjölbreytt störf, var m.a. bóndi í 10 ár og starfa nú sem fjármálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, auk þess sem ég hef starfað að félagsmálum.

Það sem brennur á í þessu kjördæmi eru byggðamálin og jafnrétti til búsetu, bæði hvað varðar grunnþjónustu eins og heilbrigðisþjónustu og skóla. Jafna þarf mun á milli svæða hvað samgöngur, raforkuöryggi og atvinnumál varðar. Styrkja þarf stoðir atvinnulífsins til sjávar og sveita svo tryggður verði í öllum fjórðungum öflugur atvinnuvegur á fjölbreyttum grunni. Málefnum aldraðra og öryrkja þarf að hlúa að og sem og mannréttindum fatlaðra til náms og heilbrigðisþjónustu, hvar sem þeir búa á landinu.

Ég býð mig fram til heiðarlegrar þátttöku í stjórnmálum landsins þar sem haft verður að leiðarljósi samtal ólíkra aðila og skoðana til framfara öllum landsmönnum. Það verður verkefni komandi kjörtímabils að koma á festu í íslenskum stjórnmálum og vinna af heilindum til að auka traust á þeim sem vinna að stefnumótun í íslenskum stjórnmálum.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir