Kjósum til framtíðar
Það er bæði krefjandi og skemmtilegt verkefni að fara af stað með nýtt framboð til sveitastjórnarkosninga. Það er sérstaklega skemmtilegt að því leyti að maður verður mjög var við það hvað núverandi staða samfélagsins og framtíðarþróun þess er mörgum íbúum sveitarfélagsins mikið hjartans mál. Það er ýmislegt sem brennur á fólki en þar virðast leik- og grunnskólamál, skipulagsmál og fjármál sveitarfélagsins iðulega vera efst á baugi. Þessir þrír málaflokkar eru ByggðaListanum mjög hugleiknir og teljum við að þau málefni sem falla þar undir ættu að vera í algjörum forgangi.
Það er óhætt að segja að leik- og grunnskólamál snerti allflesta íbúa sveitarfélagsins með beinum hætti. Þetta er málaflokkur sem þurfa einfaldlega að vera í lagi svo samfélagið okkar geti vaxið og dafnað sem best skildi. Skortur á dagvistunarplássum og aðstöðuleysi til íþróttaiðkunar í grunnskólum eru því miður vandamál sem blasa við í sumum af þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins. Þau þarf að leysa og koma í varanlegt horf, og það sem allra fyrst. Vegna þess hve mál sem þessi snerta íbúa mjög er mikilvægt að leysa þau í samvinnu við íbúa hvers svæðis fyrir sig, sem og starfsfólks viðkomandi deilda. Það gleður mig því að sjá að fleiri framboð en ByggðaListinn eru með það á oddinum fyrir komandi kosningar að auka íbúalýðræði, og vonandi að svo verði áfram hjá þeim en fjari ekki út strax eftir kosningar. Á þetta munum við leggja mikla áherslu á.
Varðandi skipulagsmálin, er gríðarlega mikilvægt að heildarmyndin sé skoðuð áður en farið er af stað í framkvæmdir. Hvernig viljum við sjá byggðina okkar þróast næstu áratugina? Til að fá fólk til að festa hér rætur þarf að halda áfram að bjóða upp á skipulagðar lóðir, og á það við um alla þéttbýliskjarna sveitarfélagsins. Þessar lóðir þurfa að vera aðlaðandi og á góðu byggingarlandi, og eins með það í huga að tekjur fólks eru misjafnar, og ekki allir sem geta byggt sér stórt einbýlishús.
Fjármál sveitarfélagsins eru að sjálfsögðu grunnatriði í öllu þessu samhengi. Velferð og góð þjónusta við íbúa sveitarfélagsins er best tryggð með ábyrgum og gegnsæjum rekstri sveitarfélagsins. Fjárhagslegar skuldbindingar hafa aukist ár frá ári í krónum talið, sem getur varla talist góð þróun þar sem íbúunum hefur ekki verið að fjölga í takt við það. En til þess að íbúum geti fjölgað verða ofangreind atriði á borð við skólamál og skipulagsmál að vera í lagi. Því tel ég enn mikilvægara að forgangsraða frekari skuldbindingum sveitarfélagsins til þeirra verka sem þeim eru falin í lögum að sinna. Eins tel ég þau verkefni sem ekki er fjallað um sem lögbundin verkefni sveitarfélaga, verði að vera vel útfærð, þar sem unnin er kostnaðaráætlun, og hún borin saman við heildaráhrif verkefnisins áður en hafist er handa. Forsendur verða að vera raunhæfar, og þau verða að vera unnin í samvinnu við hlutaðeigandi fyrirtæki á svæðinu sem og íbúa sveitarfélagsins þegar um stærri verkefni er að ræða.
Þau atriði sem ég hef fjallað um hér að ofan eru meðal annars ástæða þess að ég gef kost á mér til sveitarstjórnarmála sem oddviti ByggðaListans í komandi kosningum.
Ólafur Bjarni Haraldsson
Höfundur skipar 1. sæti ByggðaListans sem býður fram í sveitarfélaginu Skagafirði í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.