Karrýkjúklingur og syndin ljúfa

Hafþór Gylfason yfirmatsveinn á Hafrúnu HU 12 frá Skagaströnd og Sigþrúður Magnúsdóttir starfsmaður Samkaupa á Skagaströnd og spákona voru matgæðingar Feykis í 38. tbl. árið 2008. „Með hliðsjón af bágu efnahagsástandi er ekki gert ráð fyrir forrétti en eftirrétturinn bætir það upp“, sögðu þau en þá gekk ýmislegt á í þjóðfélaginu eins og menn vita.

 

Hafþór og Sigþrúður skoruðu á Vigdísi Þorgeirsdóttir verslunarstjóra Samkaupa á Skagaströnd og Þröst Árnason pakkara og veiðimann að koma með uppskriftir að tveimur vikum liðnum.

 

Kjúklingur í karry-sinnepssósu
Innihald:

 

  • 1 stk. kjúklingur
  • 400 gr. hátíðarblanda
  • 2 stk. Campbells súpa í dós
  • 1 lítil dós majónes (sirka 6 msk.)
  • 5 tsk. karry
  • 2 msk. sætt sinnep
  • 1 tsk. sítrónusafi
  • 150 gr. ostur
  • 0,5 pk. rasp

Aðferð:

  • 1. Sjóðið kjúklinginn í 1 klukkutíma (just in case), kælið og plokkið kjötið af
  • 2. Steikið eða sjóðið grænmeti og setjið á botninn á stóru eldföstu móti og setjið kjötið ofan á.
  • 3. Hrærið saman súpu, majónesi, karry, sítrónusafa og sinnepi og setjið yfir kjötið.
  • 4. Síðan fer osturinn ofan á og loks rasp.
  • 5. Hitið í ofni við 170 gráður í 40 mín eða þangað til að rétturinn er orðinn brúnn að ofan.

Eftirréttur
Litla syndin ljúfa

  • 100 gr. smjör
  • 100 gr. súkkulaði
  • 2 egg plús ein rauða
  • 100 gr. flórsykur
  • 50 gr. hveiti

Aðferð:
Ofninn hitaður í 220 gráður, ekki blástur. Smyrja formin vel og strá í þau smá hveiti. Smjör plús súkkulaði brætt í potti við vægan hita. Eggin þeytt vel ásamt rauðu. Flórsykri bætt út í og þeytt áfram. Síðan súkkulaði bætt út í og áfram er þeytt, og að lokum bætt út í hveiti. Deiginu skipt í fjögur lítil form og passa þarf að fylla þau ekki alveg. Síðan fara formin inn í ofninn og bakað í 11-12 mín. Skorið með formunum og látið bíða í 2-3 mín, síðan hvolft á diska. Kökurnar eiga að vera aðeins blautar í miðjuni. Borið fram með ís eða rjóma.

Verði ykkur að góðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir