Jónas og Hannah valin best í meistaraflokkum Tindastóls
Lokahóf knattspyrnudeildar Tindastóls fór fram sl. laugardagskvöld í Ljósheimum. Mikið var um dýrðir, matur, ræður, gamanmál og að sjálfsögðu verðlaunaveitingar. Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ og fyrrverandi leikmaður og þjálfari Tindastóls, heiðraði samkomuna með nærveru sinni en hún var mætt á Krókinn daginn áður til að veita sigurvegurum Lengjudeildar kvenna verðlaunabikar eftir úrslitaleik Tindastóls og FH.
Veislustjórar voru feðgarnir Eysteinn Ívar og Guðbrandur Guðbrandsson, sem fóru á kostum sem fyrr, og framkvæmdastjóri deildarinnar, Sæþór Már Hinriksson, dró ekki af sér með hljómsveit sinni að dagskrá lokinni fram á nótt.
Sunna Björk Atladóttir, formaður knattspyrnudeildar og Halldór Jón Sigurðsson, eða Donni þjálfari, veittu bestu og efnilegustu leikmönnum viðurkenningar en efnilegastur pilta þótti Sigurður Pétur Stefánsson, besti liðsfélaginn Ísak Sigurjónsson og Jónas Aron Ólafsson var valinn besti leikmaðurinn. Hjá stelpunum var Magnea Petra Rúnarsdóttir valin efnilegust, Bryndís Rut Haraldsdóttir besti liðsfélaginn og Hannah Cade besti leikmaðurinn.
Þá fékk Atli Freyr Kolbeinsson sérstaka viðurkenningu sem félagsmaður ársins en hann hefur verið öflugur við að vinna með og aðstoða deildina við hin ýmsu störf.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.