Jayla Johnson kemur í stað Chloe Wanink

Körfuknattleiksdeild Tindastóls tilkynnti fyrr í dag að gerðar hefðu verið mannabreytingar hjá kvennaliði Tindastóls. Bandaríski leikmaðurinn Chloe Wanink, sem einnig þjálfaði yngri flokka félagsins, hefur haldið heim á leið en í hennar stað er komin önnur bandaríska stúlka, Jayla Johnson. Jayla er 185cm á hæð, framherji, öflugur stigaskorari og frákastari. Hún verður 24 ára nú milli jóla og nýárs.

Fram kemur í tilkynningunni að hún var stigahæst í háskólaliði sínu á síðasta tímabili, Eastern Kentucky. Þá standa vonir til þess að hún muni einnig styrkja lið Tindastóls varnarlega.

„Pat þjálfari segir góða stemmingu í liðinu og bjartsýni og jákvæðni fyrir seinni hluta tímabilsins. Við bjóðum Jaylu Johnson velkomna á Krókinn og hlökkum til að sjá hana í Síkinu,“ segir í tilkynningunni.

Chloe Wanink var stigahæst Stólastúlkna í vetur með 29,3 stig að meðaltali í tólf leikjum og mikil 3ja stiga skytta. Hún var þó kannski ekki púslið sem lið Tindastóls þurfti og má því segja að breytt sé um áherslur með því að kalla á Jaylu Johnson í hennar stað. Nú er bara að vona að liðið nái vopnum sínum með tilkomu hennar og komist á sigurbraut.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir